149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:27]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Já, þetta voru ágætissvör. Ég velti þó tvennu fyrir mér. Annars vegar er það varðandi verðbólguútreikningana. Nú er 30 ára hlaupandi meðaltal væntanlega byggt á því að í Svíþjóð eru fasteignalán að jafnaði til 30 ára eða þar um bil, án þess að ég viti það, hvort rétt væri að hugsa þetta í samhengi við aðrar tölur. Langflest fasteignaveðlán á Íslandi eru t.d. til 40 ára. Það gæti þá verið betri mælikvarði. Á móti kemur að það að fylgja þessu eins og þetta hefur verið lýsir kannski betur breytingum á markaði, þó svo þetta lýsi ekki raunverulegu greiðsluálagi hvers og eins íbúðarkaupanda hverju sinni.

Varðandi þessa valkosti. Nú er það svo sem ákveðið sjónarmið að viðhalda núverandi kerfi, en hefði hv. þingmaður áhuga á því að greina kostnaðinn sem núverandi kerfi hefur í för með sér og gera samanburð á því? Hefði hann áhuga á að bera saman kostnaðinn við það kerfi, með vaxtaálagi og hávaxtastefnu og öllu því, við kostnað við aðra valkosti í samhengi við möguleikana? Líklega er það gríðarlegur kostnaður fyrir þjóðarbúið að viðhalda hvaða kerfi sem er, öll kerfi hafa sína kosti og galla. En væri áhugi á því á því hjá hv. þingmanni að gera greiningu á þessu og fá úr því skorið hvað núverandi kerfi kostar eins og við hv. þm. Óli Björn Kárason ræddum hér áðan?