149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:29]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Við erum eiginlega komin þangað, í samtalinu um þennan húsnæðislið, að við erum að tala um hann á mun dýpri forsendum en hvernig eigi að reikna hann. Við erum að tala á þeim forsendum, a.m.k. miðað við það vægi sem hann hefur hér, að með því að hafa hann inni sé í raun lagt á Seðlabankann að eltast við bólur á eignamarkaði, sér í lagi fasteignamarkaði. Það eru út af fyrir sig miklu dýpri, þyngri og sterkari rök fyrir því að taka hann út sem viðmiðun við mótun og framkvæmd peningamálastefnunnar en hvort hlaupandi meðaltalið er reiknað til lengri eða skemmri tíma.

Auðvitað er það svo að allt væri betra en það fyrirkomulag sem við höfum því að það er nánast öfgafullt með hliðsjón af þessum erlendu fyrirmyndum hvernig þetta er gert hérna.

Varðandi mat á kostnaði þá finnst mér það mjög áhugaverð spurning hjá hv. þingmanni. Ég greindi í ræðu minni og rifjaði upp eina ferðina enn mat á kostnaði sem lagst hefur á heimilin vegna þessa húsnæðisliðar. Viðbrögðin? Engin. Fréttaflutningur af málinu? Enginn. Enginn hefur neitt um þetta að segja og þarna eru 118 milljarðar sem lögðust á heimilin út af þessum húsnæðislið, 118 milljarðar. Viðbrögð engin.

Þannig að ég ætla nú kannski ekki að hlaupa í það að fara að meta einhvern kostnað eins og hv. þingmaður talar um. En út af fyrir sig er hans ábending þörf og góðra gjalda verð.