149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:31]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu þar sem var farið víða um völl og ánægjulegt að hlusta á. Ég hjó eftir því að hv. þingmaður ræddi um hinn djúpa mollhljóm sem hefði heyrst í skýrslunni þegar rætt væri um t.d. skipan aðstoðarseðlabankastjóra. Kannski tók ég ekki nógu vel eftir en ég hjó ekki alveg eftir því hvort hv. þingmaður lagði eitthvert eigið mat á þær tillögur sem lagðar eru fram í þessari skýrslu þegar kemur að þjóðhagsvarúð og þeim tækjum sem lögð eru til.

Svo hefur verið farið yfir það ágætlega í dag, virðulegi forseti, að það er einmitt lagt til að skipa tvo aðstoðarseðlabankastjóra og líka að fjölga meðlimum í fjármálastöðugleikanefndinni sem taki endanlega ákvörðun um beitingu þjóðhagsvarúðartækjanna. Mig langaði að fá hv. þingmann til að tala aðeins betur um það hvernig honum líst á þessar tillögur eða hvort það séu einhver önnur innlend varúðartæki sem hv. þingmaður sér fyrir sér að væri hægt að beita og þá hver, sem hann gæti komið inn á. Vissulega höfum við rætt hér húsnæðisliðinn og fleira slíkt en ég beini kannski sjónum meira að þjóðhagsvarúðartækjunum.