149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:33]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég lít þannig á að ég hafi að nokkru, þótt með óbeinum hætti sé, svarað fyrirspurninni í ræðu minni að því leyti til að þegar talað er um að fjölga þarna mönnum og skáka eitthvað þá verður að segjast að það myndi hafa styrkt þá tillögugerð ef jafnframt lægi fyrir greining á árangri af störfum þessara hópa, ég veit ekki hvor þeirra ber þyngra nafn, maður fyllist alvarleika og að sjálfsögðu virðingu þegar þetta ber á góma.

Fyrir mér hefur það ekki mjög mikla merkingu í raun og sanni hvort þessi eigi að sitja þarna eða á hinum staðnum ef það er ekki útskýrt og greint nákvæmlega hvað það er í reynslunni eða fræðum þess vegna sem kallar á svona breytingar. Ég er út af fyrir sig ekkert að mótmæla þessum tillögum, ég leyfi mér bara að lýsa því að ég tel að þær hefðu hugsanlega mátt vera eilítið betur grundaðar. En í mínum huga er þetta ekki stóra málið að öllu leyti.

Stóra málið er það sem ég lagði mun þyngri áhersla á í ræðu minni, það er þessi greining á markmiðunum tveimur sem Seðlabankanum er ætlað að hafa, þjóðhagsvarúð annars vegar og verðstöðugleiki hins vegar, og sú niðurstaða nefndarinnar og rökstuðningur fyrir henni að þjóðhagsvarúðin eigi að vera vega þyngra ef þessir tveir þættir myndu rekast á.