149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:37]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni hans ágæta andsvar. Ég skal viðurkenna að ég notaði nútímatækni til að fara um skjalið til að leita að skilgreiningu á hugtakinu eindarvarúð. Mér leikur forvitni á að vita: Hver er þessi eind sem verjast ber? [Hlátur í þingsal.]

Ég þykist fara nærri um merkingu orðsins. Ég bý svo vel að eiga von á því að hitta jafnvel höfundana á fundi hv. efnahags- og viðskiptanefndar áður en langt um líður og þá verður maður náttúrlega að eiga eftir að inna þá eftir þessu. Ég er mjög ánægður að hv. þingmaður skuli hafa eignast uppáhaldsorð þarna. Það eru sterkir keppinautar: Kerfisáhættunefnd. Maður veltir fyrir sér hvaða leið maður þarf að fara í lífinu til að rata þangað eða í fjármálastöðugleikaráð.

En svona að öllu gamni slepptu, ég lærði í vikunni að menn eigi ekki að gera að gamni sínu í þessum ræðustól. (Gripið fram í.) Svo við förum yfir í þessi alvarlegu mál. Það er þessi samræmda vísitala. Hún er ekkert svo rosalega samræmd. Það er til eitthvað sem heitir Hagstofa Evrópusambandsins. Hún heitir á útlensku Eurostat. En það er enginn samræmdur staðall í Evrópu fyrir þennan húsnæðislið. Ég rataði einu sinni og náði svo langt að komast inn í það sem heitir notendahópur Hagstofu Íslands og sat mikla og góða fundi um vísitölumálefni þannig að ég tel mig hafa mjög glöggar og réttar upplýsingar í þessu efni.