149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:00]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Þingmaðurinn kom inn á það í ræðu sinni að íslenska krónan væri örmynt og íslenska hagkerfið pínulítið og það er alveg rétt hjá honum. Það er þannig. Það hefur alltaf verið þannig. Á meðan við búum í þessu landi verðum við áfram með lítið hagkerfi, það breytist líklega ekki neitt.

Engu að síður er það svo, hvort sem það er vegna eða þrátt fyrir smæð hagkerfisins, hvort sem það er vegna eða þrátt fyrir hagstjórnina, að sennilega hafa fá samfélög, a.m.k. í Evrópu, náð meiri framförum á 20. öldinni eða tekið stærri stökk úr eymd og volæði, eigum við ekki bara að segja það, yfir í hagsæld. Og það voru sömu karlarnir sem stjórnuðu — það voru karlarnir á þeim tíma, þetta voru allt karlar — með þessari blessuðu krónu, með þessari mynt og með þessa þjóðarsál á bak við sig og náðu samt þessum árangri. Er þingmaðurinn að segja að við hefðum náð miklu betri árangri og miklu fyrr ef við hefðum frá upphafi verið með aðra mynt?

Komandi svo aftur að hinu sem hann sagði, að þær væru 84 þjóðir sem væru stærri en Ísland en hefðu ekki sína eigin mynt, ég held hann hafi orðað það einhvern veginn þannig, (Gripið fram í: Minna en 2 milljónir.) — minna en 2 milljónir, já. Hvernig raðast íslenska hagkerfið með tilliti til hagvaxtar, hagsældar og framþróunar á 20. öldinni miðað við þau hagkerfi?