149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:05]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér skýrslu um framtíð íslenskrar peningastefnu. Í upphafi máls míns vil ég taka það fram að ég er um margt ágætlega ánægður með þessa skýrslu. Það er margt ágætt í henni. En það er ljóst eins og hefur raunar komið fram í máli fleiri þingmanna að skýrsluhöfundar höfðu tiltölulega takmarkað hlutverk, voru í rauninni fyrst og fremst að bera saman tvær leiðir og skýrslan kannski takmörkuð að því leyti.

Þá er vert að nefna eins og hefur komið fram í máli fleiri þingmanna að í september 2012 kom einmitt stóra skýrslan, skulum við segja, frá Seðlabankanum um valkosti Íslands í gjaldmiðilsmálum. Að því leyti er ekki nein sérstök ástæða til þess að fara aftur að ræða það hvar við stæðum með tilliti til þeirrar skýrslu í þessari umræðu. Við skulum heldur ekkert fara í neinar felur með það að það var ákveðin krafa, þegar farið var af stað með þessa skýrslu af hálfu tiltekinna stjórnarflokka á þeim tíma, Viðreisnar ef ég man rétt, að myntráð yrði skoðað sérstaklega. Má kannski segja að skýrslan hafi fyrir vikið að einhverju leyti takmarkast þess vegna. Það er þá bara þannig.

Í skýrslunni er einmitt reifað í löngu máli af hverju myntráð er í rauninni ekki leiðin fyrir hagkerfi eins og Ísland. Það er ágætt að við séum þá búin að fá það á hreint. Engu að síður hafa nokkrir þingmenn í ræðum sínum í dag gefið ádrátt um að þetta gæti kannski verið möguleiki og þá gjarnan talað um að vera í myntbandalagi eða einhverju föstu myntsamstarfi við einhverja aðra þjóð. En tilfellið er að það er í raun ekki verulega frábrugðið því að vera í myntráði. Við myndum í slíku samstarfi missa a.m.k. hluta af þeim hagstjórnartækjum sem við höfum í dag.

Tillögur skýrslunnar eru eins og hefur ítrekað komið fram í dag 11 talsins og eru ljómandi góðar margar hverjar. Í máli nokkurra hv. þingmanna hefur tillaga 5 til að mynda verið nefnd, en í henni er gert ráð fyrir að halda áfram með verðbólgumarkmiðið 2–2,5%, en taka út húsnæðisliðinn. Ég heyri það á máli margra þingmanna að það gleður þá og það er ljómandi. Mér finnst skýrsluhöfundar færa ágætisrök fyrir því af hverju þetta ætti að vera þannig.

Skýrsluhöfundar ræða í tillögu 7 m.a. um eitt af þeim varúðartækjum, hagstjórnartækjum, sem við eigum að hafa, þ.e. innflæðishöftin. Við höfum aðeins rætt það í dag að án þess að hafa möguleikann á slíku tæki þá geti verið erfitt að vera með sæmilega hagstjórn í litlu myntkerfi eins og á Íslandi. Við sjáum það til að mynda núna þegar gengið gefur eftir og við ræddum það aðeins áðan hvort það væri skynsamlegt að slaka aðeins á innflæðishöftunum núna til að freista þess að styrkja gengið eða stabilísera.

Það sem mér finnst hins vegar vera einna áhugaverðast í þessari skýrslu og skýrsluhöfundar segja ítrekað og aftur er að meginmálið er ekki hvaða leið við förum heldur að við reynum að hafa eitthvert system í galskapnum, reynum að fara eftir þeim reglum sem við höfum ákveðið í sameiningu að eigi að fara eftir. Föllum ekki ítrekað í þann freistnivanda að stökkva til í sífellu og bregðast við með einhverjum aðferðum. Við höfum ítrekað prófað það. Skýrsluhöfundar rekja raunar mjög vel í skýrslunni sögu stjórnunarinnar á íslensku hagkerfi frá 1918 og raunar aðeins fyrr og hvernig menn hafa sífellt fallið í þá freistni að bregðast við með einhverjum, eigum við að segja, stórkarlalegum lausnum. Það er jafnvel talað um slíkt í kosningaloforðum og fleiru.

Þetta er kannski meginmálið. Ef við ætlum að halda stöðugleika í íslensku efnahagslífi þurfum við að fara eftir reglum. Þar skiptir innlend hagstjórn gríðarlega miklu máli. Að við sem eigum heima hérna og kjósum okkur stjórnvöld sættum okkur við að þurfa að fara eftir einhverjum reglum. Ég veit að Íslendingar eru upp til hópa ekki þjóð sem er neitt sérstaklega spennt fyrir að fara eftir öllum reglum. Við erum óttalegir reddarar í okkur. Sumum finnst það vera voðalega krúttlegt þjóðareinkenni, þetta reddast. En það á kannski ekki sérlega vel við þegar við erum að tala um fyrirbæri eins og hagstjórn, sérstaklega þegar við skoðum hagstjórnina í því samhengi og þau áhrif sem hún hefur á stöðu heimila og hvernig þjóðinni sjálfri farnast. Þá er „þetta reddast“ voða léleg græja, skulum við segja.

Séríslenskir þættir í íslenska hagkerfinu eru raktir dálítið í skýrslunni og komið ítrekað inn á hversu auðlindadrifið okkar hagkerfi er. Skýrsluhöfundar segja raunar að í slíku hagkerfi geti verið mjög erfitt, sérstaklega ef það er lítið, að þurfa að binda sig við annað hagkerfi, t.d. stærra myntsvæði. Það er ein meginástæðan fyrir því að þeir hafna myntráði. Sveiflurnar í okkar hagkerfi þurfa ekkert endilega að vera í flútti við sveiflurnar í stóra hagkerfinu. Þess vegna getur það verið snúið.

Eitt af verkefnunum er að skapa innan samfélagsins ákveðið traust á hagstjórnina, koma okkur saman um reglur, koma okkur saman um hvernig við ættum að gera þetta og að við reynum smátt og smátt að byggja upp þetta traust sem er svo nauðsynlegt. Þetta kom aðeins fram í máli mínu í samræðum hér áðan við hv. þm. Þorstein Víglundsson um fyrirkomulagið sem er viðhaft víða á Norðurlöndunum. Þar er sums staðar alla vega búið að ákveða hreinlega að þetta séu reglurnar og þeir ætli að starfa inni í þessu módeli. Norðurlandaþjóðirnar eru sumar með sjálfstæða mynt, sumar með evru og sumar með „evru light“, eins og Danir, með danska krónu sem er bundin föst við evruna. Allt í góðu með það.

Það verður gaman að ræða þessa skýrslu og frekari viðbrögð við henni í efnahags- og viðskiptanefnd, sérstaklega að ræða þessa innlendu áhrifavalda sem mér finnst ekki hafa verið ræddir nægjanlega mikið hérna, t.d. þá stöðu sem er í íslenska hagkerfinu að við erum með risastóra lífeyrissjóði í íslensku samhengi sem halda núna á u.þ.b. 4.000 milljörðum í eignum. Það er fimm sinnum stærra en gjaldeyrisvarasjóðurinn, sem dæmi.

Mig langar að ræða meira um hvaða áhrif þjóðarsjóðurinn mun hafa á þetta og hvort við náum einhvern tíma þeirri stöðu að vera með sambærilegan þjóðarsjóð og Norðmenn og það sveiflujöfnunartæki sem slíkur sjóður getur verið. Ég hlakka líka til að ræða meira í efnahags- og viðskiptanefnd þá áhrifaþætti sem eru á vexti sem mér finnst vera í íslensku hagkerfi, sem mér finnst menn oft skauta dálítið fram hjá þegar við ræðum málin í þingsal. (Forseti hringir.) Ég hlakka til að ræða þetta mál frekar og ég veit að þingmenn munu áfram verða spenntir fyrir því að ræða þessa skýrslu.