149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:25]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég er aðeins að velta fyrir mér orðum hans um að það sé verið að neita að ræða aðra kosti sem mér finnst pínulítið sérkennilegt, verð ég að játa. Ég veit ekki betur en við höfum verið að ræða ýmsa aðra kosti og séum í raun og veru sífellt að gera það. Kannski er hægt að rifja það upp þó að það hafi nú komið hér nokkrum sinnum fram í dag að erindisbréfið og forsendurnar fyrir nákvæmlega þessari skýrslu koma frá síðustu ríkisstjórn. Það var verkefni nákvæmlega þessarar nefndar að skoða þetta. Hafi einhverjir eitthvað við það að athuga hvernig það erindisbréf var þá væri þeirri gagnrýni kannski betur beint að þáverandi ríkisstjórn og þar með talið Viðreisn sem hefur hingað til ekki neitað að ræða upptöku evru.

Mig langar líka að ræða við hv. þingmann, sem sagði hér, kannski af ákveðinni kerskni, að það væri hennar persónulega skoðun að evran væri eina lausnin, hvort hv. þingmaður hafi ekki neinar áhyggjur af því. Nú er ég ekki að tala gegn því að það sé rétta lausnin heldur langar mig aðeins að heyra hv. þingmann tala um hvort það séu ekki einhverjar áhyggjur sem hann hefur, verði sú lausn fyrir valinu. Ég spyr vegna þeirrar staðreyndar að okkar hagkerfi, eins og hér hefur verið rætt áður af öðrum þingmönnum, slær kannski ekki alltaf í sama takti og stærri hagkerfi. Hver væru þá varúðartæki okkar þegar það kæmi efnahagslægð? Þær koma, hvort sem við erum í stórum hagkerfum eða ekki. Hver væru tækin sem við gætum haft til að hafa áhrif, önnur en að lækka við okkur í launakostnaði og opinberum útgjöldum?