149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:28]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka svarið. Mér finnst umræðan um Evrópusambandið núna af hálfu ýmissa þingmanna Samfylkingarinnar dálítið ankannaleg. Mér finnst eins og það að verða aðili að Evrópusambandinu sé á einhvern hátt hliðarafurð þess að taka upp evru. Það er eins og aðild að Evrópusambandinu sé svona aðeins til hliðar og það sé evran sem sé aðalmálið. Það er nýr tónn sem ég þykist greina, en það er náttúrlega bara ég eins og margt annað í þessu lífi.

En ástæðan fyrir að ég spyr sérstaklega um þessi varúðartæki er að þetta er raunverulegt viðfangsefni og við verðum að vera búin að svara þessum spurningum öllum, ekki bara að við finnum einhverja lausn. Það má benda á það, af því að ég talaði um atvinnustigið sérstaklega, að við erum með hæstu atvinnuþátttöku af öllum löndum Evrópusambandsins. Það er staðreynd sem við eigum að bera virðingu fyrir og spyrja okkur sjálf og koma með svörin um hvort hún muni breytast ef við breytum einhverju, t.d. með upptöku evru.

Lífshamingja hér er samkvæmt mælikvarða mjög há. Hvort það tengist þessu veit ég ekki, en þetta er eitthvað sem við verðum að svara, við verðum að vera tilbúin til að spyrja: Hvað mun gerast?

Ég átti þess kost að ræða þessi mál, ég var í heimsókn hjá Evrópusambandinu, skrifaði töluvert um þá heimsókn, og átti þess einmitt kost að ræða um evrumál, upptöku á evru án aðildar að Evrópusambandinu. Það voru mjög skýr skilaboð frá Evrópusambandinu um að það væri ekki eitthvað sem hugnaðist þeim. Ég skrifaði eftir viðmælanda mínum, með leyfi forseta: „We don't like it“. Það er einmitt út af því að þá væru engin þjóðhagsvarúðartæki, engin tæki til að takast á við sveiflur í efnahagslífinu önnur en þau að lækka launakostnað sem er þá að segja upp fólki eða semja um launalækkun og (Forseti hringir.) skera niður opinber útgjöld. Ef við erum aðili að þessu stærra myntsvæði þá erum við að tala um aðild að Evrópusambandinu.(Forseti hringir.) Og þá eigum við bara að ræða það en ekki upptöku evru.