149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:33]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að slá svolítið annan tón en hefur verið í þessari umræðu með því að fara svolítið víðar og breiðar um völl en hingað til hefur verið gert. Deilt er um að hve miklu leyti hagfræðin megi teljast pólitísk. Það er ólíkt til dæmis jarðfræðinni. Ég tel að að stærstum hluta sé hún pólitísk, að meginhluta, og ef svo væri ekki væri sjaldan deilt um efnahagsmál og hvar við flokkum peningastefnubókina, endurmatið, pólitískt. Það er spurning. Hvernig flokkum við skoðanir á henni pólitískt, gróflega séð vinstri, hægri? Er það nægjanlegt eða nærskorið, þurfum við þá að spá í ismana, stefnurnar keynesismann, kratismann eða marxismann eða hvað eina? Ég ætla mér ekki þá dul að greina innihald þessarar bókar og setja fram lausnir. Ég hef ekki til þess menntun næga né heldur fræðilega þekkingu. Þó að ég sé hér stimplaður stjórnarþingmaður eða þingmaður yfir höfuð þá er ég ekki í stakk búinn til að gera það, en það liggur einmitt þannig í því að á Alþingi erum við með ólíka þekkingu og ólíkar grunnhugsjónir og getum ekki öll rætt um allt.

Ég ætla að fara nokkrum orðum um stóru línurnar, um rammann, um kerfið með stóru k-i um hagkerfið og tala um meginefnahagskerfi heimsins, kapítalismann, sem mjög sjaldan heyrist nefndur því nafni á Alþingi. Það er jú þannig eins og allir vita að smáar jafnt sem stórar þjóðir lúta þessu hagkerfi og stórveldin sömuleiðis, þrjú til fjögur, hvernig sem við nefnum þau. Við þetta bætast efnahagsbandalög ESB, bandalög í Asíu, Suður-Ameríku o.s.frv. Ég ætla ekki að fella neinn dóm um gagnsemi þeirra í þessu samhengi. En ég var hugsi í morgun frammi fyrir 245 síðna ritinu og fór að hugsa: Ætli Grænlendingar ræði peningastefnu eins og við? Eða Kínverjar, ætli þeir ræði peningastefnu eins og við á sömu nótum hægri, vinstri? Eða eru þeir fullkomlega á kafi í innri umræðu um peningastefnu á þeim nótum sem hún er sett fram á?

Herra forseti. Ég lít svo á að sagan sé áhugaverð. Hálf 19. öldin, 20. öldin, 21. öldin er jú tími kapítalismans fyrst og fremst. Og hægt er að horfa til baka á nýlendutímabilið sem var grunnur að ríkidæmi aðaliðnaðarþjóðanna og sumra smærri þjóða sömuleiðis. Styrjaldirnar miklu, innbyrðis átök í sumum ríkjum og svo tilraunirnar til að kollvarpa kapítalisma í nokkrum ríkjum, sem varð að öfugmælum, og þar sem nú er bullandi kapítalískt efnahagskerfi með ríkisafli og nýrri yfirstétt. Við getum endað á nýkapítalismanum, frjálshyggjukapítalismanum, sem ég vil halda fram að hafi heldur skilað dapurlegum árangri þar sem jöfurinn Warren Buffett tók sér þau orð í munn að sú tegund efnahagsstefnu væri tæki til fjöldaeyðingar.

Þá fáein orð um innra vélvirkið í kapítalismanum. Það er breytt eignarhald. Það eru ekki lengur innlendir auðjöfrar, segjum í Svíþjóð sem eiga sænska hagkerfið að stórum hluta. Þeir eiga aðeins 10%. Hitt eru sjóðir og fjölþjóðafyrirtæki. Þetta er breyting.

Annað um innra vélvirkið. Það er sífelldur hagvöxtur í heimi þar sem auðlindir eru takmarkaðar.

Enn annað. Útþensla yfir landamæri.

Og enn annað. Erfiðar hagsveiflur þar sem framboð, eftirspurn, offjárfestingar, gengisþrýstingur og annað framkallar sveiflur sem eru mjög erfiðar öllum, nema kannski einstaka fjárfestum. Við getum svo deilt um árangurinn af þessu öllu saman. Í mínum huga er ekkert sérstaklega björt mynd í þessum ramma sem ég minntist á áðan.

Vissulega er það þannig að árangurinn er misjafn eftir löndum. Við getum sagt og giskað á að það er ágætismeðalvelmegun í 20–30% landa, en um leið er það óyggjandi staðreynd á heimsvísu að hinir ríku hafa orðið ríkari og hinir fátæku fátækari. Það er kannski stóri dómurinn sem við þurfum að horfast í augu við eftir 250 ár, þ.e. 250 ára sögu þessa kerfis. Menn geta meira að segja verið misánægðir með það og deilt um hvort sú mynd sem ég dreg upp sé hin rétta eða hvort við eigum að fagna því að svona sé komið.

Hvað sem virkri og góðri eða vondri peningastefnu innan ríkja líður er þetta niðurstaðan að mínu mati. Peningastefna á Íslandi snýst auðvitað um umræður og stefnumótun og samþykktir. Til þess erum við hér. Því höldum við úti til að gera lífið bærilegra fyrir lág- og meðaltekjufólk á Íslandi. Þess vegna get ég staðið hér keikur og tekið þátt í ríkisstjórnarsamstarfi eða verið stjórnarandstæðingur því að það er okkar hlutverk. Þessi peningastefna er merkt því hagkerfi sem við lifum við.

Þá að máli málanna í þessu samhengi, þ.e. að loftslagsmálum, herra forseti. Ég hef til þessa líklega sagt fátt sem telst frétt frammi fyrir þingheimi. Staðreyndir um loftslagsmál eru það ekki heldur. En við vitum þó að helstu forsvarsmenn kapítalisma í heiminum voru um hríð á bremsunni þegar kom að staðreyndum um hlýnun jarðar og þeir forðuðust umræðu um orsakir og viðbrögð eða voru henni jafnvel andsnúnir. Til þessa sést enn þá og við þurfum ekki að fara langt vestur um eða jafnvel austur um til að sjá og heyra það. En sem betur fer hafa tímarnir breyst og mjög margir kapítalistar viðurkenna vandann og vilja bjarga sjálfum sér og hagkerfinu sem er auðvitað hið mannlega eðli og því ber að fagna.

Frammi fyrir nauðsyn aðgerða til að hamla og snúa við of mikilli hlýnun býr kapítalisminn vissulega yfir fjármagni, þekkingu og athafnagirnd, ég ætla að nota það orð, en um leið eru þar innbyggðar mótsagnir tvær sem ég ætla að gera grein fyrir. Í fyrsta lagi stöðugur þrýstingur á hagvöxt og aftur hagvöxt, vaxandi hagvöxt, meiri hagvöxt o.s.frv. Í öðru lagi stöðugur þrýstingur á takmarkaðar auðlindir jarðar. Við erum núna sjö milljarðar og verðum bráðum tíu til ellefu. Þessi þrýstingur er langt umfram þá fjölgun manna. Fjöldi hagfræðinga hefur sett fram orð af þessu tagi. Þetta er jú pólitísk hagfræði og það eru pólitískir hagfræðingar sem líta svona á málin eins og ég er að reyna að gera grein fyrir.

Meginkenningin er þessi: Hefðbundinn, alþjóðlegur, samþjappaður og gróðadrifinn kapítalismi er ekki hagstjórnartæki eða rammi sem gengur upp frammi fyrir umhverfisvandanum þegar til lengdar lætur. Til þess að svo verði þarf ný viðmið, annan og nýjan skilning og nýja skilgreiningu á hagvexti, nýja sýn á auðlindanýtingu og síðast en ekki síst fulla endurvinnslu allra helstu nytjaefna sem jörðin gefur af sér.

Ég ætla mér ekki þá dul að leysa slíka þraut að útskýra hvernig þetta skuli vera eða hvernig þetta verður leyst eða hvaða hugtök verða ofan á á endanum, en minni á að peningastefna á Íslandi endurspeglar sannarlega eftir sem áður kjarna og djúpan vanda ríkjandi hagkerfis. Handan hennar bíður okkar langvinn umræða, kannski deilur um nýtt hagkerfi sem hentar sjálfbæru mannlífi sem er lykillinn að framtíðinni. Við verðum alltaf að leita útsýnis yfir allan skóginn handan við hin einstöku tré. Til þess var mín stutta hugvekja.