149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:49]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Aftur þakkir til hv. þm. Smára McCarthys fyrir þessi andsvör. Peningastefna og mannréttindi. Ég get ekki betur heyrt í umræðunum hér en menn tengi þetta saman. Við þurfum kannski ekki að tala um mannréttindi í sjálfu sér heldur lífsskilyrði. Og hvernig eigum við að skilja efnahagsleg lífsskilyrði frá mannréttindum? Ég held að það sé mjög erfitt. Ég held að peningastefna, þegar verið er að tala um fjárlög, um ríkisfjármálaáætlanir, um hvernig hægt er að halda genginu stöðugu o.s.frv., tengist vissulega efnahagsmálum sem aftur tengist mannréttindamálum. En það er kannski misskilningur hjá mér að einhverju leyti en ég hef alltaf haldið því fram að hagkerfi og mannréttindi séu óaðskiljanlegir þættir í hverju samfélagi.

En þegar kemur að þeirri hagfræðilegu tengingu sem hv. þingmaður nefnir, það að skeyta krónuna við aðra gjaldmiðla eða eitthvað í þá áttina, verð ég einfaldlega að játa að mig skortir þar þekkingu. Ég sem raunvísindamaður eða jarðvísindamaður, eða hvað hægt er að kalla mig, hef ekki þá yfirsýn yfir alla mótorana og allar tengingarnar í hagkerfinu að ég sjái það fyrir mér að það sé annaðhvort rétt eða rangt, eða að ég sjái fyrir mér að kínverska dæmið sé sú sönnun sem örríkið Ísland getur notað. Ég ætla ekki að mótmæla neinu sem hv. þingmaður sagði heldur frekar lýsa mig vanhæfan til þess að fella um það nokkurn dóm.