149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:51]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta er yfirgripsmikil skýrsla og ég ætla að reyna að drepa á nokkur atriði. Í skýrslunni er talað um að verðbólgumarkmið geti gengið upp. Þar er dregið fram, með leyfi forseta:

„Á síðustu fjórum til fimm árum hefur náðst mikill árangur við að framfylgja verðbólgumarkmiðum hérlendis. Það hefur skilað íslenskum almenningi gríðarlegum ábata með mikilli aukningu kaupmáttar, samhliða því að almennt vaxtastig hefur lækkað. Það er mjög mikilvægt að þessum árangri sé fylgt eftir.“

Já, ég get alveg tekið undir þetta að því leyti að auðvelt hefur verið að halda þessu verðbólguviðmiði í ákveðnum auðveldum aðstæðum. Hér hafa verið felldir niður tollar og gengisstyrking hefur verið. Þetta eru ekki sjálfbærar aðstæður, sjálfbærir atburðir sem við getum stólað á til langframa. Við getum ekki fellt niður fleiri tolla, eitthvað smá í viðbót að vísu, en ekki að eilífu. Við getum væntanlega ekki treyst á að gengið komi til með að styrkjast og styrkjast gagnvart öðrum gjaldmiðlum að eilífu heldur. Það er í slíkum aðstæðum sem mjög auðvelt er að viðhalda verðbólgumarkmiðum þegar ytri aðstæður hjálpa til.

Þegar fer hins vegar að verða erfitt, eins og núna, gengið er að falla og inn streyma, eins og segir í frétt RÚV frá því í gær, tilkynningar um verðhækkanir til Samtaka atvinnulífsins, og þá erum við komin í sama gamla farið aftur, einhvers konar verðbólguvana þar sem engin skyndilausn er sem getur reddað okkur út úr verðbólgunni.

En þetta eru einkenni þessa verðtryggða samfélags sem við búum í þar sem vísitala neysluverðs er mælitæki á það hvernig verðlagsþróun gengur. En af því að við erum með verðtryggingu á ýmsum hlutum í þjóðfélaginu, m.a. í verði, að ég tali nú ekki um lánum, sem vísitalan beinlínis mælir, að þegar verð hækkar þá hækkar vísitalan sem hækkar verð sem hækkar vísitöluna o.s.frv. Þetta er vítahringur verðbólguvanans sem við dettum þarna inn í.

Að auki er talað um mikla hækkun launa síðastliðin fimm ár, hún hafi verið um 8% á ári. Að sjálfsögðu vill maður þá spyrja: Til hverra hefur þessi hækkun runnið? Það er ekki nóg að tala bara um meðaltal í þessu tilviki. Það er alveg greinilegt að ýmsir hópar hafa verið skildir eftir út undan. Þegar gengið fer að lækka hefur það tvímælalaust þeim mun verri áhrif á þá sem hafa ekki náð þessari kaupmáttaraukningu sem talað er um hér að sé voðalega góð að jafnaði.

Á blaðsíðu 145 í skýrslunni er gerður samanburður á aðferðum Hagstofunnar til að komast að kostnaði við eigið húsnæði og er borið saman við Svíþjóð og Kanada. Í Svíþjóð er það reiknað út frá síðastliðnum 30 árum, hlaupandi meðaltal fasteignaverðs síðastliðin 30 ár, og í Kanada síðastliðin 25 ár. Á Íslandi? Síðastliðinna þriggja mánaða. Það þýðir að þegar einhverjar breytingar eru í húsnæðisverði á Íslandi fara þær strax inn í vísitöluna. Þær hafa áhrif á stundinni. Í Svíþjóð og Kanada gera þær það ekki. Hækkun yfir þrjá mánuði miðað við 30 ár eða 25 ár er smávægileg. Það dregur kostnaðinn mjög lítillega upp þegar einhver skot koma upp eða niður. Við tökum hins vegar alltaf dýfuna eða tökum alltaf stökkið, í aðra hvora áttina, bara nokkurn veginn um leið og það gerist.

Þetta er náttúrlega mjög góð leið til að vera með vísitölu neysluverðs mjög nákvæma á hverjum tíma fyrir sig, en að nota það mælitæki til að skoða hvernig verðlag í landinu er að þróast, til þess síðan að hafa áhrif á það sem mælitækið er að mæla, það eyðileggur mælitækið. Það er eins og að nota tommustokk til að mæla hvað metri er en hann lengist alltaf um leið og maður er að mæla. Það gengur ekki.

Einn helsti gallinn sem virðist vera í þessari skýrslu er einmitt skorturinn á því að skoða alla þá valmöguleika sem liggja fyrir, þá kosti sem t.d. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn býður upp á að séu valkostir í peningastefnu. Það er mjög merkilegt að af öllum þeim kostum séu þeir allir teknir til hliðar og einhverjir tveir skoðaðir, öðrum af þessum tveimur er vísað strax frá og í rauninni er bara núverandi kostur skoðaður. Og ekki út frá neinni kostnaðargreiningu eða samanburði við hina, sem myndi kannski segja okkur að þetta væri besti kosturinn, heldur er þetta að því er virðist bara svona söguleg greining að miklu leyti og óbeinn samanburður, eins og t.d. í þessu tilviki með Svíþjóð og Kanada, þar sem verið er að sýna muninn en ekki hvaða afleiðingar það hefur í raun og veru og hvaða kostnað við værum að bera af þeirri peningastefnu sem við erum með núna, með tilliti til þá hinna stefnanna.

Í ræðu fyrr í dag tók hv. þm. Óli Björn Kárason einmitt undir það að enginn kostur væri ókeypis, þeir kostuðu allir eitthvað. Það er ekki alls kostar rétt. Það er í rauninni ákveðinn grunnkostnaður við alla þessa möguleika. Einhver þessara kosta hefur lægstan kostnað fyrir okkur á Íslandi, fyrir þær aðstæður sem við höfum hérna. Á þann hátt er hann ódýrari en allir hinir kostirnir og á þann hátt er hann í rauninni ókeypis miðað við dýrari kostina. Ef við miðum út frá grunnkostnaði er enginn aukakostnaður miðað við dýrari kostinn fyrir vikið.

Þegar allt kemur til alls, þegar kemur að því að velja hvaða peningastefnu við ætlum að fylgja, þá skiptir það gríðarlega miklu máli, af því að fram hefur komið í máli allra hérna og allir gera sér grein fyrir því, að kostir og gallar eru við hvern valmöguleika fyrir sig. Hver valmöguleiki fyrir sig virkar ekki nákvæmlega eins í öllum löndum, er mismunandi eftir aðstæðum o.s.frv. Það sem skiptir máli er að við vitum hverjir þessir kostir og sérstaklega hverjir gallarnir eru til þess að við getum unnið gegn göllunum á virkan hátt.

Einhverra hluta vegna, þrátt fyrir að við séum búin að vera með þessa peningastefnu í ansi mörg ár og ættum að vita gallana á henni, tekst okkur samt ekki að koma í veg fyrir að gallarnir raungerist með tilheyrandi kostnaði fyrir land og þjóð.

Ég held að alvarlegasti gallinn við þessa skýrslu sé sá að ekki sé nægilega góð greining, nema ég hafi misst af henni, hún er ansi margar blaðsíður og við fengum ekki allt of langan tíma til að lesa hana yfir, ekki sé góð greining á því hvað við eigum að vera að gera til að koma í veg fyrir þær kollsteypur sem við lendum í ítrekað.

Bent hefur verið á að við séum einmitt að stuðla að því að sá galli sem er á núverandi peningastefnu raungerist með fjárlagafrumvarpinu sem við erum að fjalla um núna þessa dagana, að við séum gagngert að fara gegn þeim ráðleggingum sem þarf að fylgja til að koma í veg fyrir að gallarnir raungerist. Það er áhugavert sjónarmið út af fyrir sig og eitthvað sem við ættum að taka með inn í fjárlagaumræðuna og fá nánari greiningu á.

En þetta er, held ég, ágætisbyrjun. Það á bara eftir að fjalla um tíu aðra kosti eða eitthvað því um líkt, ég hlakka því til að sjá framhaldið á þessu.