149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:04]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir. Það er þannig að skýrslan fjallar ekki um allt sem hún átti að gera samkvæmt því verkefni sem hópnum var falið, svona til að hafa það alveg á hreinu.

Varðandi að mikilvægt sé að setja verðbólgumarkmið þá er það náttúrlega á þeim forsendum að við höfum peningastefnu. Við veljum að hafa þá stefnu, eða eins og talað er um hérna: Það að fylgja leikreglunum skiptir meira máli en hvaða leikur er valinn.

Ég er ekki alveg sammála því vegna þess að það skiptir líka miklu hvaða leikur er valinn. Þegar leikur hefur verið valinn verður svo að sjálfsögðu að fylgja leikreglum. Það er alveg glatað mál að velja einn leik en spila eftir einhverjum öðrum leikreglum.

Ef við veljum leikinn þar sem við ætlum að elta verðbólgumarkmið er að sjálfsögðu nauðsynlegt að setja verðbólgumarkmið, en eins og ég benti á virðist ekkert endilega vera farið eftir ráðleggingum til að fylgja peningastefnunni í því fjárlagafrumvarpi sem við fjöllum um. Ábendingarnar sem við fáum eru að það sé bullandi verðbólguþrýstingur í gangi, alveg rosalegur, og enginn af umsagnaraðilunum hefur í rauninni sagt: Þetta fjárlagafrumvarp kemur til með að minnka þann þrýsting.

Þá spyr ég á móti: Jú, það er mikilvægt að setja sér verðbólgumarkmið ef maður velur þann leik, en af hverju er þá ekki farið eftir því?