149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:10]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér skýrslu um peningastefnu, mjög mikilvægt og gott plagg. Mjög góð umræða hefur átt sér stað og ýmis sjónarmið komið fram. Það er mjög gott að við tökum þetta málefni fyrir, endurmat á ramma peningastefnunnar. Það er afar mikilvægt innlegg í þær mögulegu breytingar sem við munum sjá til betrumbættrar peningastefnu.

Hæstv. forsætisráðherra kom inn á það að hagstjórn og vinnumarkaður þurfi að vinna vel sem ein heild og að vel mótuð peningastefna geti stuðlað að aukinni hagsæld í landinu. Ég tek undir þau orð hæstv. forsætisráðherra. Við höfum þessa skýrslu í höndum og hún er í raun samantekt á 100 ára sögu íslenskrar peningastefnu. Nokkrar niðurstöður eru settar fram í skýrslunni sem eru mjög athyglisverðar. Hér eru 11 tillögur sem eru vel fram settar og snúa að umgjörðinni í þessum málaflokki og hvernig unnið skal með hana. En líkt og forsætisráðherra kom inn á — það hefur margoft komið fram og kemur fram í skýrslunni — skiptir mjög miklu máli að við fylgjum leikreglum; það skiptir meira máli en hvaða fyrirkomulag hefur verið valið. Ástæða óstöðugleikans er að við höfum ekki fylgt leikreglum með tilheyrandi óstöðugleika. Sú hefur verið raunin.

Mig langar til að grípa niður í nokkur atriði í skýrslunni. Þegar kemur að myntráði og hugmyndum um það er það mat starfshópsins að gríðarlega erfitt sé að tryggja efnahagslegan stöðugleika undir myntráði sem getur aðeins gerst með miklum kerfisbreytingum hér innan lands, svo sem á vinnumarkaði. Jafnframt er það mat starfsfólksins að upptaka myntráðs skapi óásættanlega áhættu fyrir fjármálastöðugleika þar sem íslenskar fjármálastofnanir standi eftir án lánveitanda til þrautavara. Af þeim ástæðum getur starfshópurinn ekki mælt með þeim kosti fyrir Ísland við núverandi aðstæður. Þetta hafa hv. þingmenn farið vel yfir hér í ræðum sínum og rætt þetta fram og til baka. En þetta er sem sagt niðurstaðan hér.

Það kemur líka fram að á síðustu fjórum til fimm árum hafi náðst mikill árangur við að framfylgja verðbólgumarkmiðum hérlendis og það hefur skilað íslenskum almenningi gríðarlegum ábata með mikilli aukningu kaupmáttar, samhliða því að almennt vaxtastig hefur lækkað. Það er mjög mikilvægt að þessu verði fylgt eftir, eins og kemur fram í skýrslunni, að þessum árangri verði fylgt eftir.

Svo kemur einnig fram að að mati starfshópsins ætti ekki að þurfa að reka íslenska peningastefnu með stuðningi fjármagnshafta nema aðeins í neyð. Það ætti að vera hægt að styrkja grundvöll stefnunnar með markvissri beitingu þjóðhagsvarúðar þannig að Seðlabanki Íslands beri einn ábyrgð á fjármálastöðugleika, með sama hætti og bankinn er nú einn í ábyrgð fyrir verðstöðugleika.

Margt fleira mætti tína til úr þessari skýrslu en ég hyggst ekki lengja þessa umræðu mikið, einungis að koma hér upp og leggja aðeins til málanna. Skýrslan er ágætisgrundvöllur fyrir okkur til að halda áfram umræðu sem hér hefur átt sér stað. Starfshópurinn vann að endurmati á forsendum krónunnar. Það er ólíkt því sem gert var í skýrslunni 2012 þar sem niðurstaðan var að krónan yrði hér gjaldmiðill í náinni framtíð og það væri það sem við myndum lifa við. Hér voru settir fram fleiri valmöguleikar. Ég held að það sé ágætt að taka vinnuna áfram frá niðurstöðum þessarar skýrslu frá 2012 og sjá hvað hefur gerst og hvað hefur breyst hjá okkur svo að við getum unnið áfram með það.

Ég ætla að leyfa mér að vitna beint í skýrsluna, með leyfi forseta:

„Sérhver peningastefna hefur kosti og galla. Það skiptir ekki höfuðmáli hvaða stefna er valin — heldur að farið sé eftir þeim leikreglum sem hvert fyrirkomulag krefst á hverjum tíma. Ástæða þess að Íslendingar hafa frá fullveldi yfirleitt búið við óstöðugleika og verðbólgu er ekki sú að þeir hafi ávallt valið sér ranga peningastefnu — eða hafi ekki enn fundið þá stefnu sem hentar þeim. Ástæðan er sú að þeir hafa ekki fylgt þeim leikreglum sem viðkomandi fyrirkomulag hefur krafist hvað varðar beitingu hagstjórnartækja til að viðhalda efnahagslegum stöðugleika. Það hefur orðið til þess að fyrri peningastefnur hafa molnað í sundur og þjóðin búið við þrálátan óstöðugleika í peningamálum.“

Þetta verður líklega ekki of oft sagt.

Agi í ríkisfjármálum er algert skilyrði fyrir því verðuga verkefni að tryggja stöðugleika á Íslandi. Eins og margoft hefur komið fram í umræðunni í dag eru ekki til neinar töfralausnir. Við þurfum að setja fram áætlanir. Við þurfum að fylgja þeim eftir og vinna samkvæmt þeim áætlunum sem við setjum fram. Það er ekki bara í þessu heldur í svo mörgum öðrum stórum verkefnum sem við erum að takast á við hér sem þjóð, hvort sem þau lúta að samgöngum, félagsmálum, heilbrigðiskerfinu og ekki hvað síst peningastefnunni. Grunnurinn að öllu er festa, stefnufesta, að við fylgjum eftir þeim áætlunum sem við setjum fram.