149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:16]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Forseti. Gengi íslensku krónunnar hefur sveiflast til og frá. Það er gömul saga og ný. Flestir eru sammála um að slíkar sveiflur séu skaðlegar enda eru þær ófyrirsjáanlegar og enginn veit hversu lengi niður- eða uppsveiflan varir. Verð á út- og innflutningi sveiflast í samræmi við þetta, sem og hagur heimila og fyrirtækja. Vextir hafa um langt skeið verið hærri hér á landi en í helstu samkeppnislöndum. Talað er um sérstakt Íslandsálag í þeim efnum. Þetta gerir að verkum að öll áætlanagerð verður erfið og gengi krónunnar fer að stjórna í ríkum mæli áformum fyrirtækja og heimila. Allir verða að reyna að sjá fyrir þróunina en enginn getur það. Það leiðir til þess að heimili og fyrirtæki missa sjónar af því hvað er skynsamlegt eða ekki þegar ákvarðanir eru teknar. Einn daginn er skynsamlegt að ráðast í fjárfestingar, þann næsta ekki. Einn daginn er skynsamlegt að hefja útflutning á framleiðslu, þann næsta er það glórulaust. Einn daginn er skynsamlegt að kaupa fasteign, þann næsta ekki. Einn daginn er skynsamlegt að panta sér nýjan bíl, þann næsta ekki.

Krónan hefur veikst um 10–13% á sex mánuðum, allt eftir því hvenær dagsins staðan er tekin. Ég sé t.d. að bílasalar eru farnir að auglýsa nýja bíla á gamla genginu meðan aðrir tilkynna verðhækkanir. Þetta er kunnuglegt stef úr fortíðinni og verður það sjálfsagt áfram, að óbreyttu.

Herra forseti. Í viðtali við framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu í kvöldfréttum RÚV í gær kom fram að tilkynningar um verðhækkanir streyma inn frá félagsmönnum. Hvað skyldi það boða að gerist innan skamms? Skyldi það verða aukinn kostnaður fyrir heimili og fyrirtæki, aukin verðbólga og hækkun lána?

Í sama kvöldfréttatíma var viðtal við Daníel Svavarsson, forstöðumann hagfræðideildar Landsbankans, sem sagði, með leyfi forseta:

„Það er svo sem ekkert í hagtölunum sem útskýrir það að krónan skuli vera búin að falla svona hratt síðasta mánuðinn, við erum enn þá með afgang á viðskiptum við útlönd, við erum með góða erlenda skuldastöðu og góðan gjaldeyrisforða þannig að líklegasta skýringin er einhvers konar stemning á markaðinum, geðshræring.“

Oft hefur því verið haldið fram að þau sem telja evru vænlegan kost tali krónuna niður. Ég reikna þá með að að sama skapi sé fjölmennt lið sem talar krónuna upp, eða hvað? Geðshræring eða umtal um krónuna okkar virðist hafa mikil áhrif, allt of mikil áhrif. Ætli hún yrði stöðug ef við fyrirskipuðum þagnarbindindi um tilvist hennar, bresti, kosti og galla? Ekki er það nú líklegt og ekki dettur mér í hug að leggja það til.

Herra forseti. Flestir sjá að krónan er ekki tæki til þess að skapa þann stöðugleika sem er eftirsóknarverður fyrir heimili og fyrirtæki. Nýleg viðhorfskönnun sýnir að meiri hluti Íslendinga vill frekar hafa evru en krónu fyrir mynt. Það er auðvitað býsna merkileg niðurstaða og hlýtur að segja ráðamönnum eitthvað um það traust eða öllu heldur vantraust sem almenningur hefur á krónunni. Hagkvæmni fjárfestinga, framleiðni og nauðsynlegur fyrirsjáanleiki fæst ekki. Auðvitað er ekki hægt að sjá alla hluti fyrir og Ísland er mjög háð inn- og útflutningi og aðstæður á mörkuðum og samkeppni munu alltaf hafa mikil áhrif. Þess vegna er sérstaklega mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að ná tökum á þeim þáttum sem við ráðum betur við.

Það er nauðsynlegt að hafa þessi atriði í huga þegar skýrslan um framtíð íslenskrar peningastefnu er rædd. Forsendur þær sem nefndinni var falið að vinna eftir — já, ég veit vel að vinnan var sett af stað þegar Viðreisn sat í ríkisstjórn — hafa í för með sér að sá kostur sem skýrsla Seðlabankans frá 2012 taldi vænlegan, þ.e. að taka upp evru í stað krónu, er tekinn út fyrir sviga. Þegar af þeirri ástæðu eru niðurstöðurnar byggðar á þeirri forsendu að krónan verði gjaldmiðill Íslendinga í nánustu framtíð. Að mínu mati er þetta skýrt dæmi um að við erum lagin við að forðast að ræða kjarna máls og leita eftir raunverulegri rót þess vanda sem við er glímt.

Viðreisn talaði fyrir því að taka upp myntráð fyrir alþingiskosningarnar árið 2016. Það var tilraun til þess að ná umræðunni um gjaldmiðilsmál og peningastefnu upp úr þeim hjólförum sem hún hefur verið í um langa hríð. Það má alveg rifja upp að það gekk ekki átakalaust að fá orðið myntráð inn í stjórnarsáttmála Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokksins. Hið sama má segja um forsendur þær sem lagðar voru fyrir höfunda þeirrar skýrslu sem við nú ræðum. Hv. þingmenn geta velt fyrir sér hvaða flokkur vildi takmarka sjónarhornið sem mest og stóð mestan og sterkastan vörð um það að ekki mætti nefna evru nokkurs staðar í stjórnarsáttmálanum eða í verkefnum þessarar ágætu nefndar.

Í skýrslunni eru teknir saman tíu lærdómar úr íslenskri peningasögu. Þar er dregin upp heldur dapurleg mynd, 100 ára saga sem er vörðuð mistökum og brostnum vonum um að ná tökum á peninga- og efnahagsmálum. Í hvert sinn ætlum við að gera betur í þetta sinn — en án árangurs. Alltaf reynum við að sannfæra okkur um að nú höfum við lært svo mikið að nú náum við tökum á málunum. Og það gildir einnig núna. Ég vona svo sannarlega að ég hafi rangt fyrir mér en því miður held ég að sagan endurtaki sig fyrr eða síðar.

Hafi það farið fram hjá einhverjum er ég þeirrar skoðunar að því fyrr sem við göngum í Evrópusambandið og tökum upp evru, því betra. Það er stefna Viðreisnar. Ég vil reyndar taka það skýrt fram að ég vil ganga í Evrópusambandið, ekki vegna evrunnar heldur vegna þess að ég tel að við eigum að vera í Evrópusambandinu. Evran er auðvitað góður fylgifiskur aðildarinnar.

Oftar en ekki er sagt að við sem höfum þessa skoðun bjóðum upp á töfralausn sem leysa eigi allan vanda. Því fer auðvitað víðs fjarri. Ísland innan Evrópusambandsins með evru þarf að kunna fótum sínum forráð og taka ábyrgð á eigin gjörðum og það verður örugglega erfitt og krefjandi viðfangsefni. Hitt finnst mér heldur lakari nálgun, að reyna aftur og aftur að fara sömu ófæru leiðina, leið sem liggur beint út í mýri, og vonast til þess í hverri tilraun að ófæran reynist nú greiðfær vegna þess að nú sé búið að setja ný dekk undir bílinn. Hins vegar duga engar töfralausnir til að komast yfir mýrina. Það er ekki þeim að kenna sem fengnir eru til þess að setja ný dekk undir bílinn, nei, það er auðvitað ábyrgð bílstjórans sem ætlar sér yfir mýrina hvað sem tautar og raular og kemst ekki í þetta sinn frekar en öll hin skiptin.