149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:29]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Kannski er ég sérstaklega ánægður með þessa myndlíkingu þar sem ég var einmitt að panta tíma í umskipti á dekkjum. En ég er samt aðeins að velta þessu fyrir mér. Hv. þingmaður rakti hér forsendur skipunarbréfsins og hvernig farið var í skipan þessarar nefndar. Um það veit hv. þingmaður mun meira en ég.

Ég er að reyna að horfa raunsætt á hlutina, ekki endilega bara hverjar væru okkar ýtrustu kröfur og óskir og langanir heldur hvert verkefnið sem við stöndum frammi fyrir er. Ég hef ekki enn séð hver ósk hv. þingmanns er í þessu. Síðasta hæstv. ríkisstjórn stóð að gerð þessarar skýrslu. Nú höfum við hana. Hver er ósk hv. þingmanns hvað varðar þessa skýrslu, hvað eigum við að gera með hana? Eigum við að leggja hana til hliðar af því að dekkjaumgangurinn verður alltaf ónýtur og við förum ekkert að leggja út á mýrina? Vill hv. þingmaður að við hendum henni til hliðar og förum af stað í nýja vinnu og útbúum nýtt skipunarbréf þar sem evran yrði tekin inn; að við gerum ekkert í eitt til tvö ár eða þann tíma sem það tekur, ég átta mig ekkert á því hve langur tími það yrði? Eða vill hv. þingmaður að við horfum á einhverjar af þeim 11 tillögum sem lagðar eru fram í þessari skýrslu og gerum eitthvað með þær? Og hvað þá helst?

Ég veit að það er örugglega ósanngjarnt af mér að ætla að biðja hv. þingmann um að tiltaka á tveimur mínútum eitthvað af þessum 11 tillögum og ræða þær efnislega. En ég hef ekki heyrt hann ræða það neitt hvað við eigum að gera með þessar tillögur. Mig langaði því til að spyrja hv. þingmann að þessu.