149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:31]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað dálítið erfitt að svara þessu þegar maður hefur ekki neina sannfæringu fyrir þeirri vegferð sem hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að leggja upp í á grundvelli þessarar skýrslu, sem hefur vissulega sína galla. Stærsti gallinn er sá að ekki er stungið upp á neinni leið, svo að við höldum okkur nú við myndlíkingarnar, til að fara annan vegarslóða sem líklegt er að menn komist yfir og á áfangastað.

Hitt held ég að sé skynsamlegt að gera, að horfa á margar af þessum tillögum — ég ætla svo sem ekki að tilnefna eitthvað sérstakt í því — til að reyna að lappa upp á málið og vona það besta. Röksemdin sem oft er höfð frammi gegn málflutningi eins og mínum er sú að það þýði ekkert að horfa svona langt fram í tímann, af því að það verði að gera eitthvað núna. Við höfum margoft tekið þá umræðu og alltaf er ekki tímabært að fara vandlega í þessi mál af því að það tekur of langan tíma.

Ég er nú eldri en tvævetur eins og á hærum má sjá. Hefðu menn drifið í þessu, þegar þetta kom fyrst til tals fyrir 20 árum eða svo, værum við búin að ganga frá öllum þessum málum og komast að niðurstöðu. Við værum þá annaðhvort búin að ákveða að vera í mýrinni eða búin að finna nýjan vegarslóða. En ef menn vilja aldrei leita að nýjum slóða verða menn áfram í mýrinni. Það er erfitt fyrir mig að ráða við það. En hæstv. ríkisstjórn virðist vera staðráðin í því að halda út í mýrina eina ferðina enn.