149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:33]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég fagna því að við ræðum þessa skýrslu, hún er mikilvægt innlegg. Ég horfi á hana sem mikilvægt innlegg inn í þá stóru umræðu sem við, a.m.k. við í Viðreisn, munum viðhalda, bæði hér á þingi og í samfélaginu, um nauðsyn þess að breyta um peningamálastefnu og helst taka upp annan gjaldmiðil sem er evran.

Ég ætla að reyna að einblína á þessa skýrslu. Mér finnst stundum eins og ákveðnir þingmenn í stjórnarliðinu, og jafnvel hæstv. ráðherrar, skýli sér á bak við það að þetta sé plaggið frá ríkisstjórninni sem ég sat í á síðasta ári, að þetta sé uppleggið frá henni. Já, það er alveg rétt. Það dylst engum að við komumst einfaldlega ekki lengra með Sjálfstæðisflokkinn. Það mátti ekki ræða þann möguleika sem auðvitað blasir við öllum, þ.e. möguleikann á upptöku annarrar myntar og hvaða þýðingu það hefði. Það eru ekki bara kostir, það eru líka gallar. Það hefði verið ágætt að fá það líka.

Til viðbótar og til hliðsjónar höfum við skýrsluna frá Seðlabankanum frá árinu 2012 þar sem segir mjög skýrt: Ef ekki á að halda við íslensku krónuna er upptaka evru skynsamlegasti kosturinn. Það segir alveg skýrt í þeirri skýrslu; hún er auðvitað frá árinu 2012 en engu að síður er það niðurstaða Seðlabankans. Það hefði verið fróðlegt ef það ágæta fólk — og ég vil sérstaklega þakka því fyrir mikilvægt verk í þágu ákveðinnar endurskoðunar, í þágu þess að leggja þetta innlegg fram — hefði farið yfir þá kortlagningu. Það var ekki gert, því er nú verr og miður.

Ég vil undirstrika það sem er dregið fram, þetta er góð samantekt. Það er líka deginum ljósara, þegar maður sér viðbrögð og skoðanir annarra hagfræðinga en þeirra sem stóðu að gerð skýrslunnar, að sjónarmið eru ekki einsleit, svo að því sé haldið til haga.

En hvað svo? Hér hef ég verið að hlusta, bæði hér í salnum og á skrifstofunni minni, á þingmenn, ekki síst úr stjórnarliðinu, sem vilja alls ekki ræða það að taka upp evru eða annan gjaldmiðil. Það er náttúrlega umhugsunarefni í sjálfu sér fyrir íslenska pólitík — segi ég sem formaður flokks sem vill leyfa þjóðinni að halda áfram með aðildarviðræður að Evrópusambandinu, vill leyfa þjóðinni að fá að kjósa um samning við Evrópusambandið — að alltaf er sagt: Það þýðir ekkert að leyfa ykkur að kíkja í pakkann. Það er nákvæmlega málið. Það eru alltaf aðilar, hvort sem er hér á þingi, í ríkisstjórn eða einhver úti í bæ, sem telja sig betur til þess fallna en aðra að segja um hvað þjóðin megi kjósa hverju sinni, sem segja: Nei, þið megið ekki kíkja í pakkann. Við fáum aldrei að gera það. Það er alltaf komið í veg fyrir það með einum eða öðrum hætti.

Mér finnst það því synd að þessi skýrsla sé ekki tekin lengra en inn í ákveðið embættismannakerfi. Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin, og það er alveg skýr stefna hennar, hefur engan áhuga á því að ræða og fara kerfisbundið yfir þau atriði og þær ábendingar sem við fáum í raun á hverjum einasta degi.

Viðskiptablaðið í dag, fimmtudag 18. október 2018:

„Greiða 95 milljarða í vexti umfram viðskiptalöndin.“

Það er verið að fara yfir mjög greinargóða skýrslu — um er að ræða samvinnuverkefni ASÍ, BHM, BSRB, KÍ, Samtaka atvinnulífsins, sveitarfélaga, fjármála- og efnahagsráðuneytisins og annarra — þar sem rakinn er hluti af þeim byrðum sem við Íslendingar, og ekki síst fyrirtækin og heimilin í landinu, berum af kostnaðinum, herkostnaðinum, við íslensku krónuna. Þetta á bara að fara ofan í skúffu í stað þess að horfast í augu við þetta. Það er þetta sem við erum að benda á.

Talað er um að nú skuli komið á aga. Það eru ákveðnar ábendingar þarna. Við getum gert þetta betur. Við erum með ákveðin þjóðhagsvarúðartæki og allt í einu eru íslenskir stjórnmálamenn orðnir allt öðruvísi en þeir hafa verið í gegnum tíðina af því að það er svo miklu meiri agi kominn í galskapinn; svo miklu meiri agi kominn í ríkisfjármálum og aðhald í ríkisrekstri.

Hvað segir það mér og hvað þýðir það? Það þýðir að ríkisstjórnin, stjórnvöld hverju sinni, þarf að vera með það mikinn aga að hún gefi ekki eftir, hvort sem er í hnjánum eða annars staðar, gagnvart hagsmunaaðilum. Og hvað höfum við fengið að upplifa hjá ekki ársgamalli ríkisstjórn, í litlum sem stærri málum? Þegar hagsmunaaðilum hentar, þegar krónan er á fleygiferð, hvort sem er í sjávarútvegi eða ferðaþjónustu, á alltaf að koma með sértækar aðgerðir. Hvaða tryggingu hef ég fyrir því að ríkisstjórnin fari ekki héðan af í sértækar aðgerðir? Hvaða tryggingu hef ég fyrir því að ríkisstjórnin gefi ekki enn og aftur eftir gagnvart hagsmunaöflum, sterkum hagsmunaöflum í samfélaginu? Akkúrat enga. Við getum alveg farið frá upphafsdögum ríkisstjórnarinnar, þegar átti að koma fram með jafn sjálfsagt mál, og klára það, og sérostana — ákveðið að opna aðeins fyrir frekari tolla á sínum tíma. Vegna lagaveilu er strax spyrnt við fótum og það stoppað, því að hagsmunaaðilar hringdu í sitt fólk. Þá var ekki hægt að opna. Þá var ekki hægt að breyta kerfinu í þágu neytenda og gera það aðeins opnara.

Þetta er bara dæmi sem ég er að taka um það sem ég óttast, þ.e. að enn og aftur sé verið að fara í tilraun með íslensku krónuna og verið að segja fólki eitthvað sem aldrei verður, af því að við höfum fengið smjörþefinn af því að vera með eftirgefanleg stjórnvöld.

Þarf ég að tala um sjávarútveginn? Þarf ég að benda á veiðigjöldin sem átti að leggja á í vor? Auðvitað hrökklaðist ríkisstjórnin til að byrja með til baka þegar hún sá hversu vitlaust það var og hversu mikla mótspyrnu það frumvarp fékk, bæði hér á þingi og í samfélaginu.

Ég hef enga tryggingu fyrir því að allt í einu verði meiri agi í ríkisfjármálum, að það verði meiri viðspyrna, að menn þori að segja nei við hagsmunaöflin af því að það kunni að hafa áhrif á peningamálastefnu.

Við erum búin að fara vel yfir það, hv. þingmenn Viðreisnar, hversu dýrkeypt spaug þetta er fyrir okkur Íslendinga. Hátt í 300 milljarðar sem falla á ári. Er fólk ekki að meðtaka upphæðirnar? Svo á bara að fara aftur og aftur í sama leikinn undir einhverjum örlitlum nýjum formerkjum sem engin eru.

Keisarinn er í engum fötum, enn og aftur.

Þetta eru 200–300 milljarðar. 40% af því falla á íslensk fyrirtæki. Aftur hér herkostnaðurinn, 40% af þessum tæplega 300 milljónum falla á íslensk heimili og 20% á ríkissjóð í formi hærri vaxtagreiðslna og ýmissa annarra þátta.

Oft hefur verið talað um Eista, að þeir séu dæmi um hversu evran var ofboðslega slæm. Þeir tóku kreppuna í gegnum sitt raunhagkerfi í gegnum evruna. Það er alveg rétt að atvinnuleysi jókst mjög tímabundið. En hvað fengum við í staðinn? Við fengum yfir okkur dúndrandi verðbólgusjokk með öllum þeim eftirmálum sem því fylgir, skuldahækkun, gjaldfellingar og síðan 70 milljarða skuldaleiðréttingu. Það hefur verið mikill uppgangur í Eistlandi eftir að þeir gengu inn í ESB en markverðast er að þeim hefur tekist að halda ákveðnu hagræði í ríkisrekstrinum. Þeir hafa nýtt þetta samstarf og inngöngu sína innan ESB með mjög markvissum hætti. Útgjöld hins opinbera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu eru lægri en hér á Íslandi. Meginatriðið er, og það er kannski minn punktur, að Eistar eru gott dæmi um land sem hefur tekist, m.a. í krafti ESB, að hagræða í rekstri. Þeir hafa t.d. farið í gegnum e-Estonia, það er tæknivæðing þar í landi sem hefur sparað ríkinu mjög mikinn kostnað.

Ég hefði svo gjarnan viljað, til viðbótar við þessa skýrslu, að við fengjum að ræða — við í Viðreisn erum með hugsuninni um upptöku evru að reyna að fara inn í einhvern stöðugleika til lengri tíma, ekki 100 ára sögu óstöðugleika eins og við höfum upplifað — hvað fylgir stærðarhagkvæmninni. Hvað erum við að spara, m.a. í verkefnum hér innan lands? Eistar hafa til að mynda úthýst meira og minna stórum parti af sínu fjármálakerfi. Danskir og sænskir bankar reka þar 95% af kerfinu, sem þýðir að regluverkið fellur meira og minna undir erlenda aðila. Það er mikill sparnaður í því. Og fyrir smátt hagkerfi eins og Ísland mun þetta hafa í för með sér gríðarlegan sparnað í heild sinni af öllum rekstri er tengist gjaldmiðlinum.

Við í Viðreisn viljum undirstrika að ekki er sanngjarnt að almenningur sitji eftir með krónuna, kostnaðinn sem henni fylgir, á meðan tiltekin fyrirtæki hér á Íslandi tryggja sig gegn því; við vitum að í ákveðnum atvinnugreinum gera þau það. Þau eru ekkert að versla með krónuna, þau gera upp í erlendri mynt og hafa aðgang að ódýru, miklu ódýrara, erlendu fjármagni. Krónan hefur reynst (Forseti hringir.) íslenskum heimilum dýrkeypt spaug og er mál að linni. Þess vegna munum við í Viðreisn, þó að ekki sé endilega þingmeirihluti fyrir því, halda þessari umræðu vakandi og lifandi næstu misseri.