149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:44]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að ég finn til ákveðinnar samkenndar með hv. þingmanni verandi að berjast fyrir málum sem hafa augsýnilega ekki meiri hluta á Alþingi. Þau mál sem ég hef talað fyrir eiga sér einhverja raunhæfa tengingu. Lesum við hv. þingmaður ekki sömu dagblöðin? Heyrum við ekki sömu fréttirnar? Vitum við ekki hvernig Evrópusambandið er ekkert á þeim buxunum að taka við nýjum aðildarríkjum? Sjáum við ekki hvernig Evrópusambandið er að reyna að niðurlægja okkar góðu vini Breta? Og væntanlega, svo ég leyfi mér að sletta hérna dönsku, „for skræk og advarsel“ gagnvart öðrum sem kynnu að láta sér detta í hug að hverfa út úr Evrópusambandinu?

Höfum við ekki bæði fylgst með fréttum af því hvernig gríska þjóðin var fótum troðin, svipt fullveldi sínu og stjórnað af einhverju þríeyki? Telur hv. þingmaður og flokkur hennar æskilegt fyrir Íslendinga að ganga til liðs við þetta bandalag meðan svona er fyrir því komið? Álítur hv. þingmaður að við hefðum komist undan Icesave-óþverranum, leyfi ég mér að segja, ef við hefðum verið aðilar að Evrópusambandinu á þeim tíma? Eða hefðum við kannski þurft að gefa út allsherjarábyrgð fyrir skuldbindingum bankanna eins og Írar gerðu?

Ég verð að leyfa mér að segja að ég undrast þann málflutning að þessu leyti. Við sjáum núna að við gætum í krafti þessarar umræðu og væntanlegrar breytingar á lögum um Seðlabankann jafnvel náð því að losna við þennan húsnæðislið sem hefur lagt óbærilegar byrðar á okkur. Af hverju er ekki flokkur hv. þingmanns og hv. þingmaður, svo öflugur sem hann er, með okkur í því að reyna að losna við þessa verðtryggingu? (Forseti hringir.) Eða er það bara þannig að halda á verðtryggingunni til streitu og segja fólki að það verði að vinna það til að samþykkja aðild að Evrópusambandinu með því fullveldisafsali sem því fylgir til að losna við verðtrygginguna?

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir á að þingmálið er íslenska.)