149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:51]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Það vill svo til að okkur þingmönnum Viðreisnar — þetta kjörtímabil erum við fjögur, munum verða mun fleiri á því næsta — finnst óhemju gaman í vinnunni. Það er að hluta til út af því að hér er gott fólk í öllum flokkum og það laðar að líka, fyrir utan það að geta átt málefnaleg samskipti.

Ég ætla aðeins að reyna að svara, mér fannst ég reyndar svara að hluta til, því að það er risastórt mál þegar komið er inn á ESB, þá er ekki hægt að sneiða hjá því og fara yfir alla hluti á tveimur mínútum.

Hefðum við staðið betur í Icesave? Hagfræðingar hafa — hv. þingmaður er hagfræðingur og þekkir þetta náttúrlega miklu betur en ég — bent mjög skilmerkilega á og sett fram spurningar um hvort við hefðum einfaldlega staðið í þeim sporum ef við hefðum haft evru, hvort við hefðum einfaldlega staðið í því að standa frammi fyrir þeim vanda sem Icesave kom okkur í á sínum tíma. Ég vil því frekar svarað því þannig: Ég hef þá trú að aðstæður okkar hefðu verið öðruvísi ef við hefðum átt því láni að fagna að vera í Evrópusambandinu og vera með evru. Ég held að það sé ekki spurning.

En það renna á mig tvær grímur þegar ég heyri efasemdaraddir frá Flokki fólksins, og innan annarra flokka, ekki bara í garð ESB heldur er byrjað að ráðast líka á Evrópska efnahagssvæðið, EES-samninginn. Er það það sem ég óttast? Nei, það sem ég óttast er einfaldlega það að fólk fari að draga lappirnar og reyna að draga úr þeim samskiptum og því öryggi og þeim framförum sem við Íslendingar höfum fengið í gegnum aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu.

Ég vil um leið draga fram að ákveðnir ráðherrar í ríkisstjórninni hafa tekið af öll tvímæli hvað þetta varðar, þeir eru ekki á þeim buxunum að fara að segja okkur frá EES. En það eru samt þessi sjónarmið og þess vegna teljum við í Viðreisn mikilvægt að halda Evrópuumræðunni gangandi. Þetta eru risahagsmunir. (Forseti hringir.) Það getur enginn flokkur skorast undan því að ræða þessi mál mun meira og ítarlegar en eingöngu einn dag vegna skýrslu um peningamálastefnu Íslands til framtíðar.