149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:53]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum framtíð íslenskrar peningastefnu, þetta skemmtilega rit og fróðlega. Ég ætla að byrja á því að vera býsna hreinskilin. Þegar ég fékk þetta rit fyrst í hendur óttaðist ég að það yrði nú einhver píning að lesa sig í gegnum það. Ég, aumur viðskiptafræðingur og stjórnmálamaður, hefði kannski ekki vit á öllu því sem þarna myndi koma fram. En mig langar að hrósa skýrsluhöfundum fyrir yfirgripsmikla og góða vinnu og tillögur og ekki síður að hafa tekist að setja þetta nokkuð skemmtilega og læsilega fram.

Umræðan er að mínu mati í dag, virðulegur forseti, búin að vera málefnaleg og góð og ég held að það sé mjög gott að við höfum tekið okkur góðan tíma í hana því hér er auðvitað um risamál að ræða. Svo má alveg velta fyrir sér hverju er hægt að bæta við svona á lokametrum þessarar umræðu. Mig langaði þó aðeins að koma inn á það sem auðvitað er búið að ræða hér í dag að kannski eru skýrustu skilaboðin til okkur sú að það skiptir ekki öllu máli hvaða aðferð er valin heldur það að við fylgjum leikreglum. Við, íslensk þjóð, erum ekkert sérstaklega öguð og hefur svo sem komið bersýnilega í ljós. Það er alveg ljóst að í huga höfunda gengur engin peningastefna upp í lýðræðislegu ríki nema um hana ríki ákveðin þverpólitískur stuðningur. Það er væntanlega líka markmiðið með því að við gefum okkur góðan tíma til að ræða þetta mál, að ná einhverjum slíkum þverpólitískum stuðningi þó að það verði örugglega þannig að við munum alltaf hafa skiptar skoðanir á einhverjum þáttum stefnunnar.

Höfundar skýrslunnar taka saman 10 lærdóma úr íslenskri peningasögu og mig langar að staldra sérstaklega við lærdóm þrjú, í ljósi þess á hvaða stað við erum. Þar segir: „Stöðugleiki á vinnumarkaði er undirstaða verðstöðugleika.“ Þar er rakið að það hefur líklega aldrei náðst nein, hvað eigum við að segja, sátt, við höfum aldrei komist að einhverju samkomulagi um það hvernig einstakar stéttir raða sér í launastiganum. Í skýrslunni er ýjað að því að öðrum þjóðum hafi tekist miklu betur upp með þann þátt. Ég hygg að við þurfum að ræða þessi mál á komandi vetri í ljósi þess að kjarasamningar eru lausir. Ég held að það væri að mörgu leyti þörf og góð umræða, að við myndum einmitt ræða það, í staðinn fyrir eilífar prósentuhækkanir og upphæðir. Við myndum reyna að nálgast það að vera sammála um það með hvaða hætti mismunandi stéttir skuli raðast í launastiganum.

Ég hafði líka nóterað hjá mér að fá að lesa upp úr á bls. 35 í skýrslunni en þar segir, með leyfi forseta:

„Eftir því sem segir í almannavalsfræðum eiga stjórnmálamenn við ákveðinn skuldbindingarvanda að etja þegar kemur að stórum, erfiðum og mögulega óvinsælum ákvörðunum. Það er eins og kennt var í Litlu gulu hænunni að allir vilja éta kökuna en enginn hafa fyrir því að baka hana. Lýðræðið getur mjög hæglega snúist upp í uppboðsmarkað — þar sem hver frambjóðandi keppist við að bjóða hærra þar til samkoman endar langt fyrir ofan efnahagslegan veruleika.“

Mér fannst nú ágætt að velja þessa setningu til að lesa upp hér í þessum sal akkúrat núna í ljósi þess að við erum að ræða fjárlögin og þau eru í meðförum okkar. Ég hygg að flest höfum við hugmyndir um að þar mætti bæta við í ýmsum málaflokkum þrátt fyrir að það sé mjög vel gert í þeim flestum. Kannski eru færri hugmyndir um hvar megi hagræða og spara.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu neitt sérstaklega. Ég á sæti í efnahags- og viðskiptanefnd og eins og virðulegur formaður þeirrar nefndar, hv. þm. Óli Björn Kárason, fór yfir fyrr í dag hyggjumst við taka þessa skýrslu til gagngerrar umræðu í þeirri nefnd og ég geri ráð fyrir því að við munum skiptast á skoðunum um þetta og vonandi eiga gott samstarf við hæstv. forsætisráðherra um þær tillögur sem kunna að koma fram í þessum efnum.