149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[18:01]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega er rétt að við erum auðlindaland og söfnum smám saman í sarpinn. Okkur hefur gengið misvel með þær auðlindir sem okkur standa til boða og orðið auðug af því, misauðug að vísu.

En fyrst við eigum að fylgja leikreglunum og fyrst peningastefnan gengur út á að halda verðbólguviðmiðum, hvað finnst hv. þingmanni þá um það að núverandi fjárlagafrumvarp sé samkvæmt öllum umsagnaraðilum ekki til þess gert að loka á þann undirliggjandi bullandi verðbólguþrýsting sem allir umsagnaraðilar segja að sé til staðar? Það kom t.d. í ljós nýlega með öllum þeim tilkynningum sem Samtökum verslunarinnar bárust um verðhækkanir þegar gengið fór að veikjast.

Ef okkur er svona annt um að fara eftir leikreglunum, af hverju gerum við það þá ekki í fjárlögunum?