149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[18:02]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki lesið allar umsagnir sem bárust fjárlaganefnd um fjárlagafrumvarpið. Ég hygg að það sé ekki alveg rétt með farið að allar umsagnirnar séu á þá leiðina.

En okkur á að vera alveg ljóst að við erum að þenjast býsna langt inn í þann ramma sem við höfum. Ég held að öllum hafi verið það ljóst strax þegar við mæltum fyrir fjármálaáætluninni og svo fjárlögunum, þar er ljóst að svigrúmið er tiltölulega lítið.

Við höfum aftur á móti margfarið yfir að verið er að ráðstafa fjármunum í mjög brýn samfélagsleg verkefni sem munu skila okkur auknum hagvexti inn í framtíðina. En ég get heils hugar tekið undir að við þurfum að fara mjög varlega. Ég held að það séu stóru skilaboðin. Á tímum sem þessum þurfum við að stíga mjög varlega til jarðar í allri útgjaldaaukningu.