149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

mótun klasastefnu.

28. mál
[18:32]
Horfa

Flm. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er hárrétt að það eru margir sjálfsprottnir klasar sem ég kom inn á í ræðu minni sem hafa gert frábæra hluti og gengur mjög vel. En hugmyndafræðin gengur út á samvinnu þvert á greinar. Mikið af þessum sjóðum og mikið af eflingu rannsókna og nýsköpunar er á vettvangi hins opinbera. Klasi byggir einmitt á því að við tökum þátt í þessu klasasamstarfi. Það er alltaf hætta á að við sitjum bara hjá og það verði gjá á milli. Að sama skapi er mjög mikilvægt að tengja alla háskólana við þetta, fræðasamfélagið, atvinnulíf og hið opinbera.

Það er líka hárrétt hjá hv. þingmanni og ég tek undir með honum varðandi nýsköpunarstefnuna, ég þekki þennan hóp hæstv. nýsköpunarráðherra, ég er varamaður í þeim hópi og er mjög áhugasamur um þessi mál. Sú leið sem Danir fóru í kjölfarið á nýsköpunarstefnunni var að þeir voru mjög fljótir að stíga skrefið lengra og sammæltust um klasastefnu sem er í raun og veru samofin nýsköpunarstefnunni og er bara tæki til þess að virkja nýsköpun.

Reynslan erlendis frá af þessu í þeim skýrslum sem ég hef þó grautast í gegnum er einmitt sú að öll vinna verður markvissari, eins og með alla stefnumótun, öll ráðstöfun fjármuna verður markvissari og svo leiðir þetta af sér, þegar aðilar úr ólíkum áttum vinna saman, að það gerast góðir hlutir, (Forseti hringir.) alveg eins og í jarðvarmaklasanum. Mér fannst, því ég fór nú á alþjóðlegu ráðstefnuna um jarðvarma, vanta eitthvað. Ég get komið inn á það í seinna andsvari.