149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

mótun klasastefnu.

28. mál
[18:37]
Horfa

Flm. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég átta mig á því hvert hv. þingmaður er að fara. Ég féll á tíma í fyrra andsvari en hér er rétt að tengja við það að á alþjóðlegu jarðvarmaráðstefnunni, sem var stórbrotin, voru stjórnvöld svolítið á hliðarlínunni. Það er alltaf galli. Sjálfsprottnu klasarnir eiga það til að lokast inni í faglegum klösum eins og við köllum það. Þar skortir skuldbindingu, þar skorti stefnu. Þetta les maður mjög vel í gegnum inntakið í dönsku stefnunni. Með stefnumótun stjórnvalda samþykkir þú þessa samvinnu, þennan vettvang, og setur upp einhverja sýn um hvernig eigi að nýta hana, t.d. í auðlindanýtingu og móta nýsköpun úti um allt land.

Þess vegna skilgreina bæði Norðmenn og Danir héraðsklasa, landsklasa og alþjóðlega klasa. Við fáum þannig alla aðila að borðinu. Það eina sem gerist í þessu er í raun og veru að stjórnvöld samþykkja þetta og gefa stuðning.

Helsta gagnrýni Evrópusambandsins á klasastarf á Íslandi er að er skortur á stuðningi stjórnvalda við klasastarf. Ef það verður áfram þannig mun þetta einangrast við örfáa faglega klasa sem skortir stuðning, skortir yfirlýsinguna. Þá er hættan á að það dofni og nái ekki tilgangi sínum. Það kemur fram í dönsku stefnunni að ríkisstjórn, sveitarstjórnir, atvinnulíf og allir þessir aðilar hafa sameiginlega sýn og markmið um að stuðla að hagvexti og þróun þekkingar og nota þetta tæki, klasastefnu, sem þetta hvílir á. Það er inntakið. Ef allir fylgja ákveðinni sýn verður stuðningurinn til staðar.