149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

mótun klasastefnu.

28. mál
[18:43]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna sérstaklega fram kominni þingsályktunartillögu og þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir yfirferðina yfir hversu mikilvægt er að ríkið móti sér klasastefnu. Í mörgum tilfellum eru klasar sjálfsprottnir vegna samlegðaráhrifa af samvinnu aðila en stuðningur við það fyrirkomulag getur skipt sköpum í því að klasar vaxi og dafni. Lykilorðið hér er samvinna, þó svo að vissulega geti þeir aðilar sem mynda klasa verið í virkri samkeppni.

Fram kemur í þingsályktunartillögunni að ríkisstjórninni sé falið að skipa starfshóp sem fái það hlutverk að móta stefnuna þar sem fram komi hvernig hið opinbera efli stoðkerfi í þeim málaflokki. Ég tel einnig mikilvægt að jákvæðir hvatar séu nýttir til að stuðla að samvinnu á sviði nýsköpunar, rannsókna, þróunar og framleiðslu, svo að eitthvað sé nefnt, og er áherslan á klasa þar mikilvægur þáttur.

Hv. þm. Willum Þór Þórsson talaði líka um mikilvægi þess að líta til annarra landa. Í því samhengi bendi ég m.a. á Bandaríkin þar sem hefur um langt skeið verið mikið lagt upp úr samvinnu ýmissa geira og rannsóknir, sérstaklega í tæknigeiranum, standa upp úr. Flestir þekkja fjölbreytta klasastarfsemi í Kísildalnum í Kaliforníuríki, en klasar spretta nú upp vestanhafs á ýmsum sviðum efnahagslífsins og taka oft mið af breytilegum áherslum samfélagsins, rétt eins og á Íslandi. Nýverið er birtingarmyndin fjölbreyttir heilsuklasar í takt við aukna áherslu á mikilvægi heilsufarslegrar útkomu og klasar er snúa að endurnýtanlegum orkugjöfum.

Þegar hugað er að klasastefnu er mikilvægt að minnast á mikilvægi þess að kortleggja þá klasa sem eru nú þegar á Íslandi. Vestanhafs hefur Harvard-háskóli leitt þá vinnu þegar markmiðið er að veita upplýsingar um klasa á breiðum grunni. Þar er að finna kortlagningu fjölbreyttrar klasastarfsemi, auk þess sem nýsköpunarfyrirtæki getað kynnt sér þann stuðning sem er í boði fyrir klasa af ýmsu tagi.

Hér á landi er mikilvægt að koma á fót landshluta- eða svæðisklösum þar sem fyrirtæki og stofnanir geta tengst saman og unnið að því að skapa verðmæti fyrir samfélagið og svæði sitt í heild. Að mínu mati getur klasastefna þannig rennt sterkari stoðum undir lítil og meðalstór fyrirtæki á landsbyggðinni og vert er að halda því sérstaklega til haga.

Á mínum heimavelli, Suðurnesjum, hafa klasar náð að skjóta rótum og má þar m.a. nefna heilsuklasa þar sem sprotafyrirtæki hafa sótt stuðning hvert til annars. Úr þeim frjóa jarðvegi hafa sprottið fyrirtæki sem hafa vaxið og dafnað. Má t.d. nefna fyrirtækið Geo Silica, sem vinnur bætiefni úr kísli, og hefur vegur þess vaxið jafnt og þétt á síðustu árum. Fyrirtækið er nú að hasla sér völl á erlendum mörkuðum og hefur hlotið fjölda nýsköpunarverðlauna á undanförnum árum.

Frú forseti. Ég ítreka í lokin mikilvægi þess að ríkið setji sér klasastefnu. Ég er þess fullviss að hún muni leiða til aukinnar nýsköpunar og meiri hagsældar hér á landi til framtíðar.