149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

vísindarannsóknir á heilbrigðissviði.

250. mál
[19:16]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Ég ætla bara að segja örfá orð til að lýsa ánægju minni með þetta mál sem mér var boðið að vera meðflutningsmaður að og er mjög ánægð með.

Ég er ein þeirra sem þótti upplýst samþykki bæta málið og frekar en að eyða tíma í að rekja hvað er jákvætt við þetta mál — það er búið að fara vel yfir það og ef maður hugsar málið út frá almannahagsmunum þá er þetta mál gott, það er bara þannig, punkturinn er þar — þá er alltaf hægt að finna einhver merki annars. Flutningsmaður fór vel yfir það áðan, annars vegar stjórnarskrárbundinn rétt um friðhelgi einkalífs og síðan það að menn hafi rétt til þess að vita ekki. Ég hef ekki stórar áhyggjur af því að það verði akkúrat deiluatriði í þessu tilfelli sem hér um ræðir en er samt mjög ánægð með þann varnagla sem er sleginn og þetta er upplýst samþykki.

Tækninni fleygir hins vegar svo ört fram, örar en við eiginlega getum séð fyrir, og þegar búið er að opna á með lögum svona tilkynningaskyldu þá koma upp í hugann möguleikar á siðferðilegum álitamálum eða samfélagspressu eða einhverju slíku seinna meir og þá erum við allt í einu ekki endilega að tala um lífsógnandi sjúkdóma heldur eitthvað allt annað.

Þess vegna finnst mér mikilvægt í svona mikilvægu máli að við höldum því opnu að fólk geti sagt: Ég vil ekki vita. Þegar gert er ráð fyrir því þá get ég eiginlega ekki séð fyrir mér, ekki í mínum villtustu martröðum, að menn hafi eitthvað við þetta mál að athuga. Ég hlakka til að sjá Alþingi greiða atkvæði um þessa mikilvægu lagabreytingu.