149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

efling björgunarskipaflota Landsbjargar.

125. mál
[19:18]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um eflingu björgunarskipaflota Landsbjargar. Fyrsti flutningsmaður að þessu máli er hv. þm. Jón Gunnarsson og meðflutningsmenn eru hv. þm. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Bryndís Haraldsdóttir, Haraldur Benediktsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Óli Björn Kárason, Teitur Björn Einarsson, Vilhjálmur Árnason, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Þór Gunnarsson, Sigurður Páll Jónsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Hjálmar Bogi Hafliðason, Hanna Katrín Friðriksson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir og Þorsteinn Víglundsson.

Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að stuðla að endurnýjun stærri björgunarskipa Slysavarnafélagsins Landsbjargar með fjárframlagi úr ríkissjóði sem nemi allt að 100 millj. kr. á ári næstu tíu árin. Slysavarnafélagið Landsbjörg verði ábyrgt fyrir rekstri skipanna með sambærilegum hætti og nú er.“

Í greinargerðinni með þessari tillögu er rakin mjög vel nauðsyn og tilefni tillögunnar og ég ætla að gera grein fyrir því helsta sem þar kemur fram.

Slysavarnafélagið Landsbjörg hyggst ráðast í átak um endurnýjun björgunarskipaflota félagsins. Núverandi björgunarskip eru komin til ára sinna og hafa ekki þann ganghraða sem til þarf svo að hægt sé að lágmarka viðbragðstíma við leit og björgun til samræmis við þróun sjósóknar og breytingar sem hafa orðið á hönnun og smíði skipa og báta á síðustu árum.

Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur rekið björgunarskip nánast frá stofnun Slysavarnafélags Íslands en stórt skref var stigið árið 2004 þegar tekin var ákvörðun um að fjölga björgunarskipum umhverfis landið og mynda með því samfellda keðju björgunarskipa, sæfarendum til aukins öryggis. Því átaki lauk árið 2005 með verkefninu Lokum hringnum. Um þessar mundir rekur félagið 13 björgunarskip og eru þau öll í eigu þess nema björgunarskipið Þór í Vestmannaeyjum sem er í eigu Björgunarfélags Vestmannaeyja. Elsta skipið er smíðað árið 1977 en það yngsta 1988.

Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur átt mjög gott samstarf við stjórnvöld og Landhelgisgæsluna um björgunarskipin. Félagið gerði sérstakan samning við innanríkisráðherra árið 2013 um greiðslur úr ríkissjóði á árunum 2014–2021 til viðhalds og endurbóta á björgunarskipum félagsins. Þessi samningur og framlög honum tengd hafa skipt sköpum fyrir viðhald skipanna og tryggt að unnt hefur verið að halda þeim ágætlega við að teknu tilliti til aldurs og notkunartíma þeirra. Stöðugt endurmat hefur átt sér stað um staðsetningu skipanna og hafa verið gerðar úttektir á staðsetningu árin 2006, 2011 og 2017. Þær úttektir hafa verið unnar í nánu samráði við Slysavarnafélagið Landsbjörg og Landhelgisgæsluna, að teknu tilliti til sjósóknar og eðlis og tíðni útkalla. Þá er Landhelgisgæslan hlynnt fyrirætlunum um uppbyggingu björgunarskipaflota félagsins.

Endurnýjunarverkefnið sem Slysavarnafélagið Landsbjörg hyggst nú ráðast í á 90 ára afmæli félagsins er stærsta fjárfestingarverkefni sem félagið hefur staðið frammi fyrir. Ætla má að heildarkostnaðurinn verði u.þ.b. 2 milljarðar kr. og gera má ráð fyrir að nýsmíði og endurnýjun björgunarskipaflotans geti tekið allt að tíu ár. Ljóst er að til slíkrar fjárfestingar getur ekki komið með sjálfsaflafé einu saman og verður ekki unnt að framkvæma nema með öflugum stuðningi stjórnvalda og hagsmunaaðila.

Í þessu ljósi leggja flutningsmenn til að ríkisstjórninni verði falið að hlaupa undir bagga með Slysavarnafélaginu Landsbjörg við endurnýjun stærri björgunarskipa félagsins. Telja flutningsmenn eðlilegt að ríkið komi að fjármögnun verkefnisins með framlagi sem nemi allt að 100.000.000 kr. á ári næstu tíu árin. Þá gera flutningsmenn ráð fyrir að Slysavarnafélagið Landsbjörg fjármagni eftirstöðvar verkefnisins og verði ábyrgt fyrir rekstri skipanna með sama fyrirkomulagi og nú er.

Ég legg til í samráði við fyrsta flutningsmann, hv. þm. Jón Gunnarsson, að tillagan fari að umræðu lokinni til faglegrar umfjöllunar í hv. umhverfis- og samgöngunefnd.