149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

40 stunda vinnuvika.

181. mál
[19:35]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er tvímælalaust tilgangur frumvarpsins í nútímasamfélagi að stytta vinnuvikuna með þessu skrefi. Ég myndi gjarnan vilja ganga lengra, en þetta er fyrsta skrefið.

Ísland kemur mjög illa út í samanburðartölum OECD um jafnvægi á milli vinnu og einkalífs. Að sjálfsögðu er staða barna í því sambandi mjög slæm. Einnig er það mjög alvarlegur hlutur í samfélagi okkar sem varðar geðheilbrigðismálin. Orðið hefur mjög mikil aukning hvað fjölgun öryrkja varðar t.d. út af álagi sem má alveg rekja til langs vinnutíma á Íslandi.

Það er því alveg tvímælalaust heilbrigðismál, ásamt því að vera réttindamál og fjölskyldumál, að byrja að stíga þessi skref sem fyrst, að stytta vinnuvikuna. Þegar fólk fer að tala um minni framleiðni í því sambandi er raunar margt sem bendir til þess að þessu sé í rauninni öfugt farið; að stytting vinnuvikunnar efli framleiðni frekar en að minnka hana. Þetta sýna þær tölur og upplýsingar sem við fáum úr þeim tilraunum sem eru í gangi núna um styttingu vinnuvikunnar hjá Reykjavíkurborg. Þær sýna að fólki líður betur, það nýtir tímann betur og það skilar meiri og betri vinnu af því að það fær andrými og tíma til þess að hvílast.