149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

skattsvik.

[13:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Öllum rökstuddum vísbendingum um að lög séu brotin eiga eftirlitsstofnanir að sinna. Það gildir með skattrannsóknarstjóra og önnur embætti í landinu líka, Seðlabankann. Ef menn hafa ástæðu til að ætla að lög séu brotin, að menn séu með illa fengið fé, er alveg skýr farvegur fyrir slík mál í íslenska réttarvörslukerfinu.

Mér fannst hins vegar hv. þingmaður fara dálítið úr einu í annað. Hv. þingmaður samþykkti á sínum tíma m.a. að hér á landi yrðu í gildi reglur sem gerðu beinlínis löglegt að eiga fé á aflandssvæðum. Það er ekki hægt annars vegar að setja slíka lagasetningu hér í þessum sal og hins vegar að úthrópa alla þá sem fylgja þeim lögum. Það gengur einfaldlega ekki upp. Það er ekki réttarríki sem menn búa í þar sem þannig er komið fram.

Hitt er annað mál að við höfum sammælst um það í þessum sal að ganga á eftir öllum upplýsingum um að farið hafi verið á svig við lög. Við höfum útvegað sérstakar fjárheimildir til að það sé gert. Í sumar, fyrir nokkrum vikum síðan, svaraði ég hv. þingmanni um hvernig þau mál hefðu gengið. Í því svari kom fram að á þessari stundu meta menn það svo að allt að 15 milljörðum af skattstofni kunni að hafa verið haldið eftir og ekki gefið upp, að uppistöðu til fjármagnstekjur sem eru þá 20% af viðkomandi skattstofni. Þau mál eru í eðlilegum farvegi. Önnur mál eins og þau sem hv. þingmaður vísar til, og ég þekki ekki og er ekki með á mínu borði sérstaklega, eiga að hafa sinn skýra farveg í réttarvörslukerfinu okkar.