149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

skattsvik.

[13:37]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra minntist hér á svör við spurningum mínum sem tók hann fimm mánuði að svara. Þetta voru spurningar sem voru ekki flóknar og sennilega hafa svörin legið á borði stofnana. Hvers vegna tók það svo langan tíma fyrir hæstv. ráðherra að svara þeim spurningum?

Það er rétt, eins og hæstv. ráðherra sagði hér áðan, að það kom fram í svörunum að vanframtaldir, undandregnir skattstofnar nema alls um 15 milljörðum kr. Til viðbótar hafði óloknum Panama-málum verið vísað til skattrannsóknarstjóra frá ríkisskattstjóra, 187 slíkum málum, fyrir rétt um ári. Er ekki augljóst að skattrannsóknarstjóri mun ekki geta gert hvort tveggja, klárað rannsókn á málum sem tengjast Panama-skjölum og rannsókn á slóð peninga í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans eða gjaldeyrisútboð? Finnst hæstv. ráðherra það ásættanlegt?

Í svörum hæstv. ráðherra við spurningum mínum var tekið fram að skattrannsóknarstjóri kæmist ekki yfir öll þau mál sem hann vildi komast yfir og að hann þyrfti aukið fjármagn og fleiri menn til að vinna þau störf.