149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

skattsvik.

[13:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður veit er stofnunum falið að bregðast við fyrirspurnum á þinginu. Þannig höfum við gert það. Við höfum rekið á eftir stofnunum þegar svör dragast. En þetta er komið fram og mér finnst það nú vera aðalmálið.

Varðandi fjárfestingarleið Seðlabankans er það leið sem við ákváðum á sínum tíma að opna fyrir. Við kölluðum eftir því að menn kæmu með gjaldeyri inn í landið. Ef hv. þingmaður er að spyrja mig hvort ég telji rétt að skoða eigi mál, séu einhverjar vísbendingar um að þar hafi verið á ferðinni menn sem hafi verið með illa fengið fé sem ekki hafi verið talið fram, tel ég alveg augljóst að slíkt eigi að skoða. Ég tel íslenskum stofnunum ekkert að vanbúnaði að fara í þau mál.

Hvort það eigi að vera skattrannsóknarstjóri samkvæmt einhverjum sérstökum fjárheimildum? Ja, ég myndi gjarnan vilja heyra það frá skattrannsóknarstjóra að fjárheimildir skorti til að sinna þeim málum. En ég hleyp ekki á eftir einstaka fréttum. Ég treysti embættismönnum og kerfinu, lögum og reglum, þeim sem eru á vettvangi að sinna þessum málum allan daginn, Seðlabankanum, Fjármálaeftirlitinu, (Forseti hringir.) skattrannsóknarstjóra, ríkisskattstjóra, þeim stofnunum treysti ég á hverjum einasta degi til að fylgja lögum og við hér að breyta umhverfi þeirra. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að þau sinni sínu hlutverki.