149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

staða transfólks í Bandaríkjunum.

[13:44]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og viðbrögðin. Ef ég skil hann rétt þá er þetta eitthvað sem hann hyggst taka upp ekki síst ef málið gengur lengra. Við munum láta í okkar heyra á þessum vettvangi, sem er mjög mikilvægt. Það er staðreynd, eins og hæstv. ráðherra kemur inn á, að við erum fyrir marga fyrirmynd í málefnum sem varða jafnrétti kynjanna og höfum gengið þar fram fyrir skjöldu. Það er litið til árangurs okkar þar og rödd okkar er sterk. Það er staða sem skiptir okkur gríðarlega miklu máli. Þess vegna er mjög mikilvægt að við tökum þetta lengra. Ég fagna því sem hæstv. ráðherra kemur inn á, sem er sú staðreynd að við erum ekki búin að innleiða þessi lagalegu réttindi hér. Það er vissulega á þingmálaskrá. Það hefur reyndar verið á verkefnalista stjórnvalda töluvert lengi.

Ég myndi telja, og vona að ráðherra sé sammála mér í því, án þess að ég sé að mála skrattann á vegginn, að þetta sé ákveðin áminning; áminning um það að skjótt skipast veður í lofti. Ég held að við getum flest sem hér erum verið sammála um að fyrir ekki svo mjög mörgum árum hefðu fæst okkar trúað því að þetta væri að gerast, þessir hlutir, þetta nálægt okkar í vestrinu og hinum megin við okkur líka, eins og hæstv. ráðherra kemur inn á. (Forseti hringir.) Það er gríðarlega mikilvægt að við göngum fram fyrir skjöldu, tryggjum lagaleg réttindi hér á landi, (Forseti hringir.) ræktum okkar garð áður en við förum að benda á óræktina í garði annarra, en látum jafnframt í okkur heyra. Ég treysti því að ráðherra láti verkin tala og rödd sína heyrast í þessu máli.