149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

staða transfólks í Bandaríkjunum.

[13:46]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir flest það sem kom fram hjá hv. þingmanni, en það er samt sem áður þannig að þegar maður fer að skoða hvernig ástandið er í löndum í kringum okkur bregður manni aðeins. Ég ætla ekki að telja þau lönd öll upp en ég hef aðeins verið að gera það hvað varðar þennan málaflokk og í ýmsum öðrum málum sem okkur finnst sem betur fer vera sjálfsögð á Íslandi. En eins og hv. þingmaður vísaði til; til þess að viðhalda trúverðugleika þarf að vera samræmi í orðum og gjörðum. Þess vegna er mikilvægt að við klárum þau frumvörp sem hér eru. Á sama hátt þurfum við líka að hafa samræmi í aðgerðum okkar á erlendum vettvangi og í málflutningi. Það er rétt hjá hv. þingmanni að rödd okkar er miklu sterkari en stærðin segir til um að því gefnu að við höldum þeim trúverðugleika sem okkur hefur tekist að byggja upp. Það er alveg sérstakt markmið. Ég mun halda áfram að tala fyrir mannréttindum á alþjóðavettvangi eins og ég hef gert. Það er, eins og hv. þingmaður vísaði réttilega (Forseti hringir.) til, einn af hornsteinum í okkar utanríkisstefnu.