149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

samgöngumál á Vestfjörðum.

[13:47]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Í samgönguáætlun sem við ræddum núna um daginn er gert ráð fyrir að Dýrafjarðargöngum verði lokið árið 2021. Er það vel. En Dynjandisheiði verður áfram með gömlu moldarvegunum og þar eiga framkvæmdir ekki að hefjast fyrr en 2023. Heyrði ég í umræðunni um daginn samgönguráðherra tala um að reynt yrði að leita allra leiða til að flýta undirbúningi þeirra framkvæmda sem hafa skiljanlega ekki farið að fullu í gang enn.

Því langar mig til að spyrja ráðherrann hvort hann hafi hafið þá vinnu og hvort hægt sé að segja frekar til um hvenær sú framkvæmd hefjist og hvenær henni verði lokið.

Þó að framkvæmdir í Gufudalssveit séu á samgönguáætlun og að ráðast eigi í þær fljótlega, liggur boltinn eins og er hjá sveitarstjórn Reykhólahrepps. Ekki er gott að spá um framtíðina. Í ljósi sögunnar er maður mátulega bjartsýnn á hvenær þær fara í gang.

Því langar mig að beina spurningu til samgönguráðherra í sambandi við þjónustu um gamla veginn um Gufudalssveit, hvort hún verði aukin, hvort það verði vetrarþjónusta og annað slíkt. Eins spurði ég ráðherrann í fyrra um fjölgun ferða eða hugsanlega nýja ferju yfir Breiðafjörð. Ætla ég að koma betur að því í síðari ræðu.