149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

samgöngumál á Vestfjörðum.

[13:51]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir þetta svar og en það er greinilegt að það eru ekki neinar nýjar fréttir frá því um daginn um Dynjandisheiðina, þannig að við væntum þess að unnið verði hratt og vel í því máli.

Aftur að Breiðafjarðarferjunni Baldri. Hún siglir milli Brjánslækjar og Stykkishólms og hefur ferðum fjölgað nú undanfarið í tvær ferðir, tvisvar í viku til þess að koma til móts við þungaflutninga frá Vestfjörðum, til að létta á vegunum og létta samgöngur.

Þessi bátur er gamalt skip og hefur ekki reynst vel. Hann er með einni vél sem bilaði í fyrra og var stopp í á þriðja mánuð. Aðbúnaður farþegar er mun síðri en í eldra skipinu. Og af því að ég nefndi áðan að ég hefði spurt ráðherrann um það í fyrra langar mig að spyrja ráðherrann aftur: Hefur hann átt samtal við útgerð skipsins eða skoðað þá leið að kaupa stærri og öflugri ferju? Nú er þetta þjóðvegur sem hið opinbera á að sjá um að sé fær.