149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

birting upplýsinga.

[13:56]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við höfum áður rætt þetta mál, við hv. þingmaður. Ég hef í sjálfu sér ekki miklu við mín fyrri svör að bæta í þessu efni. Ég ítreka að upphaf þessarar skýrslugerðar er á mínu skrifborði í fjármálaráðuneytinu. Hér fór fram umræða á vormánuðum 2016 og í tengslum við boðaðar kosningar sem ríkisstjórnin þáverandi kallaði til, um umfang þessara mála.

Ef við skoðum nú efni þessarar skýrslu og síðan svar sem fjármála- og efnahagsráðuneytið afhenti þinginu í sumar um það hvaða umfang hefur reynst vera í skjölunum og gefið tilefni til endurálagningar þá erum við óravegu frá þeim gífuryrðum og stóryrðum sem féllu í umræðunni um vorið. Engu að síður stórar tölur, engu að síður gríðarlega alvarlegt mál, og ég hef áður sagt hér í þinginu og opinberlega að við hefðum betur skilað skýrslunni fyrr. Það voru mistök að gera það ekki fyrr.

Ég held hins vegar að það þoli alveg umræðu að velta fyrir sér hvað var að finna í skýrslunni borið saman við það sem haldið var á lofti í umræðunni. Þá held ég að það sé mjög auðvelt að komast að niðurstöðu um að skýrslan innihélt efni sem sýndi fram á umfang sem var langt, langt frá því sem þeir sem tóku dýpst í árinni héldu fram hér í þingsal. Það var undir þeim gífuryrðum sem kosningarnar fóru fram þannig að ég sé ekki samhengið sem hv. þingmaður er ítrekað að reyna að draga fram.