149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

birting upplýsinga.

[13:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er spurt hvort við myndum hafa gert hlutina öðruvísi ef við lifðum tíma sem eru liðnir, ef við fengjum að endurlifa þá o.s.frv. Ég ætla ekki að svara svona spurningum. Þessar ef og hefði spurningar eru í raun og veru algjörlega tilgangslausar. Það sem ég hef sagt er að það voru mistök að koma skýrslunni ekki fyrr inn í umræðuna. Ég er persónulega þeirrar skoðunar að það hafi ekki verið neitt efnislegt í þessari skýrslu sem hefði sett kosningarnar í eitthvert nýtt ljós. Það er bara mín skoðun, eflaust eru aðrir annarrar skoðunar. Ég held í það minnsta að eftir að boðað hafði verið til kosninga, eftir alla umræðuna sem hafði átt sér stað hér í þingsal, úti í þjóðfélaginu, alla sjónvarpsþættina, viðtalsþættina, eftir að formaður Pírata stóð í sjónvarpssal daginn fyrir kosningar með Panama-spjaldið sitt — eftir allt þetta (Gripið fram í.) þá held ég að það sé afskaplega erfitt að halda því fram, sem mér finnst hv. þingmaður vera að reyna að gera, að kosningarnar hefðu farið með allt öðrum hætti og Píratar hefðu komist betur frá þeim ef bara skýrslan hefði komið fram. (Forseti hringir.) (Gripið fram í.)