149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

aðgengi fatlaðra að hópferðabifreiðum.

[14:05]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Auðvitað er alltaf erfitt að eiga við eldri bifreiðar en það er ekkert ómögulegt.

Ég segi fyrir mitt leyti að ef að einstaklingur í hjólastól eða fatlaður einstaklingur vill fara í flug verður hann að panta bíl 24 klukkustundum fyrr, hann verður að taka fram hvernig stól hann er með og síðan er annað í þessu dæmi, það er eitt að fá rétta farartækið. Hitt er síðan að fara á þann stað þar sem er aðstaða til að komast um borð.

Það getur nefnilega verið mjög misjafnt og mjög erfitt að komast um borð í þessi farartæki þó að aðstaðan sé fyrir hendi vegna þess að skýlin eða staðsetningin þar sem maður á að fara um borð er ekki viðunandi. Ég segi fyrir mitt leyti að þetta er ófremdarástand og við eigum að sjá til þess að það sé lágmarkskrafa að nýjar rútur fari á milli Keflavíkur og Reykjavíkur og á fjölmennustu staðina, þannig að enginn vafi sé á að allur fullkominn búnaður sé um borð.