149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

borgarlína.

[14:08]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegur forseti. Það á svo sem ekki að koma neinum á óvart sem leggur leið sína um höfuðborgarsvæðið sú niðurstaða sem kemur fram í nýlegri könnun á ferðavenjum sem unnin er fyrir Vegagerðina. Þar kemur í ljós að meðaltími ferða á milli heimilis og vinnu hefur farið stigvaxandi síðasta áratuginn.

Árið 2007 var hann níu og hálf mínúta en var kominn í rúmar 14 mínútur sumarið 2018.

Nú er það orðið þannig að 79% ferða sumarið 2018 fór fólk sem bílstjóri á eigin bíl. Það er með öðrum orðum þannig að allt of margar ferðir á höfuðborgarsvæðinu eru farnar í einkabílum. Svarendur á höfuðborgarsvæðinu dvelja rúmlega 40 mínútur í bíl á virkum degi að vetri til. Það er heldur styttra að sumri en meðaltalið fyrir sumarið 2018 er 41 mínúta, jafnt og að vetri.

Sama hvað okkur kann að finnast um þá staðreynd er ljóst að það eru einfaldlega of margir bílar á ferðinni á höfuðborgarsvæðinu. Leiðir það hugann að öðrum valkostum við einkabílinn sem liggur beint við að spyrja hæstv. ráðherra út í.

Í þeim löndum sem við berum okkur saman við, borgum af svipaðri stærðargráðu og höfuðborgarsvæðið, sjáum við stærri og hraðvirkari flutningstæki til að flytja meiri fjölda fólks. Hér höfum við kallað það borgarlínu. Við minnumst á hana í stjórnarsáttmála og höfum talað fyrir að af þessari framkvæmd verði.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í hvar það mál sé statt í samningaviðræðum á milli aðila sem þar að koma, hvort við megum eiga von á niðurstöðu um borgarlínuna fljótlega.