149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

borgarlína.

[14:10]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa áhugaverðu fyrirspurn í tengslum við fréttir í dag. Ég upplifði reyndar að þessi lenging á tíma sé miklu meiri en 9,5 mínútur upp í 14, það er kannski vegna þess að maður upplifir það alltaf þegar maður lendir í umferðarhnútnum og er kannski tíu mínútum korteri, lengur en hina dagana. En þetta er vond þróun. Það er bara þannig að við fórum af hestbaki og beint inn í bíla og hoppuðum yfir járnbrautarlestir, svo að dæmi sé tekið, eða eitthvað slíkt. Við höfum byggt á einkabílnum. Það kemur líka fram í þessari viðhorfskönnun að fólk í ytri hverfum borgarinnar horfir enn svolítið til þess að fá uppbyggingu í stofnvegabrautum og gera aðra þætti sem mundu hugsanlega hjálpa til við að stytta tímann, gera umferðina skilvirkari og öruggari en um leið minni mengun. Ég held að það sé algjört lykilatriði í dag, minni loftslagsbreytingar, koltvísýringur og svifryk og betri ljósastýring, umferðarflæði og uppbygging á stofnbrautum, þetta mun allt skila því.

Lykilatriðið er að það þarf að gera þetta sama með uppbyggingu á almenningssamgöngukerfi. Það kerfi þarf að vera miklu greiðfærara en það er í dag svo að fleiri vilji nýta sér það. Og það er sannarlega þannig að fleiri hafa nýtt sér hjólastíga og aðra fjölbreytta ferðamáta til að komast á milli staða.

Eitt af því sem hefur líka verið bent á er að við ættum kannski ekki að hafa alla vinnu hins opinbera hér niðri í bæ og um leið stórfyrirtækin þannig að allir séu á sömu leið, heldur eigi að dreifa fyrirtækjunum meira um höfuðborgarsvæðið, jafnvel um landið allt. Þannig að þar er margt sem þarf að skoða.

Nú sé ég að tíminn er búinn, herra forseti, þannig að ég verð að nota seinni mínúturnar til að fara nákvæmlega yfir vinnuna því að hún er mjög mikilvæg á grundvelli (Forseti hringir.) þeirrar viljayfirlýsingar sem ég gerði við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Ég skal nota seinni mínútuna í það.