149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

borgarlína.

[14:12]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að eyða tíma mínum í að ræða hestamál hér þrátt fyrir áhuga virðulegs forseta á þeim. En það er ágætt að heyra að hæstv. ráðherra ætlar að fara betur yfir þá vinnu sem er í gangi í vinnuhópnum þegar kemur að borgarlínunni.

Það væri ágætt að fá svör við því hvort verið sé að vinna á því á einhvern hátt, að það liggi fyrir hvenær sé hægt að byrja. Er verið að brjóta verkefnið upp á einhvern hátt? Getum við farið að sjá fyrir okkur hvenær einhverjar framkvæmdir tengdar borgarlínunni hefjast? Og eins hvað varðar fjármögnun. Í viljayfirlýsingunni er talað um vilja til að gera nýjan styrktarsamning. Við erum með tilraunaverkefni til tíu ára. Mun það ekki halda sér?

Hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson kom inn á málefni fatlaðs fólks þegar kemur að samgöngum og almenningssamgöngum. Við sjáum það að t.d. borgarlína með hágæðavögnum sem færu þar um myndu vera mjög gott val þeim efnum. Hæstv. ráðherra kom inn á mengun, bæði svifryk og eins af bílunum sjálfum. Það væri því ágætt að heyra hvar nákvæmlega málið er statt.