149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

borgarlína.

[14:14]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það sem viljayfirlýsingin snerist um var samstarf Vegagerðarinnar og samgönguyfirvalda með sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu um verkefni upp á 85 milljarða sem menn höfðu lagst yfir á síðastliðnum vetri. Um helmingur fór til ýmissa stofnframkvæmda til þess að gera umferðina skilvirkari og greiðari og draga þar með úr mengun og hinn helmingurinn, rúmir 40 milljarðar, fóru til uppbyggingar á almenningssamgöngum. Það sem menn áttu síðan eftir að gera og eru akkúrat að gera þessa dagana, þessar vikurnar, er að ræða hvernig fjárhagsleg aðkoma ríkisins á að vera að almenningshluta samgangna sem er hjá sveitarfélögunum og hvernig aðkoma sveitarfélaganna á að vera að stofnbrautakostnaði sem stundum er líka tekinn saman. Við erum líka með undir reiðhjólastíga og gönguleiðir, en reyndar enga reiðstíga í höfuðborginni, svo ég skjóti því nú að þó að það væri kannski áhugavert.

Þetta verkefni gengur mjög vel. Vinnan gengur vel. Við erum með sennilega 18,6 milljarða til almenningssamgangna á (Forseti hringir.)15 ára tímabili í þessari fjármögnuðu fjármálaáætlun sem er milljarður á ári. Það er langt umfram það sem var í samningnum, hann náði bara til 2022, sem var rekstrarsamningur á meðan við gerðum ekki neitt í stofnbrautunum. Nú (Forseti hringir.) erum við að fara í stofnbrautirnar þannig að það er nauðsynlegt að taka þetta upp. (Forseti hringir.) En við erum með talsvert fjármagn og þurfum að ræða við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hvernig (Forseti hringir.) við getum lokað þessu og sett fram aðgerðaáætlun.