149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

framtíð og efling íslenska sveitarstjórnarstigsins.

[14:16]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir að taka sér tíma til að ræða þetta mikilvæga mál. Í júlí 2017 skilaði verkefnisstjórn af sér viðamikilli skýrslu um greiningu íslenska sveitarstjórnarstigsins og að finna tækifæri og leiðir til að styrkja það. Niðurstaða verkefnisstjórnarinnar var m.a. að leggja til að stjórnvöld mörkuðu skýra langtímastefnu fyrir sveitarfélög til allt að 20 ára, að starfsemi jöfnunarsjóðs yrði tekin til endurskoðunar, að stjórnvöld tækju markvissari þátt í verkefninu um styrkingu sveitarstjórnarstigsins og fjárfestu í því.

Verkefnisstjórnin lagði til 12 aðgerðir til eflingar sveitarstjórnarstiginu og snúa þær margar að okkur hér í þinginu. Verkefnisstjórn þessi er reyndar ein nokkurra nefnda sem skipaðar hafa verið í sama tilgangi en því miður án mikils árangurs. Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir okkur hvaða orsakir hér eru fyrir því og hvernig við getum tryggt að þetta verði ekki enn ein skýrslan sem endar ofan í skúffu.

Það er margt í skýrslunni sem vekur athygli. Verkefnisstjórnin gerði m.a. könnun á viðhorfum íbúa sveitarfélaga, en íbúar sveitarfélaga virðast einblína á þjónustuna og gæði hennar en eru síður meðvitaðir um hver það er sem veitir þjónustuna. Meiri hluti svarenda taldi að lykilþættir í þjónustunni myndu batna eða haldast óbreyttir ef sveitarfélag þeirra myndi sameinast öðru sveitarfélagi.

Þá kom einnig fram að það er ríkur almennur vilji meðal sveitarstjórnarfólks til sameininga, sem má m.a. sjá fyrir austan þar sem fjögur sveitarfélög á Austfjörðum hafa samþykkt að hefja formlegar viðræður um sameiningu. Þrátt fyrir þetta góða fordæmi er ljóst að ræða þarf þá tillögu sem kemur fram í skýrslunni.

Það eru nokkrir hlutir sem þyrfti að skoða samhliða slíkum sameiningum. Númer eitt, tvö og þrjú er að leggja áherslu á að sameiningar skili bættri þjónustu við íbúa frekar en endilega sparnaði. Þá er nauðsynlegt að ríkið leggi sig fram við að styðja við sameiningar með ívilnunum og skýrum áherslum um bætta þjónustu og lífsgæði íbúa þeirra svæða sem um ræðir. Þá þarf að hafa í huga að þó að stjórnsýslulegar einingar breytist eru bæirnir áfram þeir sömu, Ólafsfjörður er áfram Ólafsfjörður og Flateyri er áfram Flateyri þótt þeir tilheyri nýjum stjórnsýslueiningum.

Herra forseti. Í skýrslunni koma fram mörg önnur áhugaverð atriði en því miður er of stuttur tími hér til að fjalla nánar um þau. Þó er erfitt að ræða sveitarfélögin án þess að koma inn á fjármögnun þeirra og Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Raunveruleikinn er sá að við höfum á Íslandi dæmi um sveitarfélög sem hafa myndast og byggst upp sem mjög einsleit samfélög fólks með háar meðaltekjur, samfélög sem bjóða upp á takmarkaða félagslega þjónustu, svo sem félagslegar íbúðir, og geta því lagt á bæði lægri skatta og boðið upp á betri grunnþjónustu við sína íbúa en önnur sveitarfélög geta gert. Niðurstaðan er auðvitað ójöfnuður milli íbúa eftir sveitarfélögum sem hlýtur að teljast óásættanlegt og er töluvert frábrugðið því sem þekkist víðast hvar í nágrannalöndum okkur.

Til að bregðast við þessu er lagt til að tekjur sem fara umfram ákveðið viðmið af einstökum tekjustofnum renni í sameiginlega sjóði sveitarfélaganna. Það myndi t.d. þýða að sveitarfélag með mjög háar meðaltekjur á íbúa myndi greiða hluta útsvarstekna sinna til sveitarfélaga þar sem meðaltekjur væru lægri. Það sama ætti við um sveitarfélög sem hefðu óvenjumikla fasteignaskatta af fyrirtækjum, t.d. vegna stóriðju, þau myndu ekki sitja ein að þeirri tekjulind. Þannig væri leikvöllurinn jafnaður og jafnframt skapast auknir hvatar til sameininga.

Að lokum, herra forseti, langar mig í þessari fyrri ræðu að koma inn á samskipti ríkis og sveitarfélaga, en sem fyrrverandi sveitarstjórnarmaður þekki ég það af eigin reynslu að allt of oft einkennast samskipti fulltrúa ríkisins og fulltrúa sveitarfélaganna af tortryggni og skilningsleysi. Þetta hlýtur að vera eitthvað sem við viljum öll reyna að breyta enda eiga þessi tvö sveitarstjórnarstig að vinna saman að hagsmunum íbúa allra en ekki í andstöðu hvort við annað. Þá þarf að skoða hlutverk embættismannakerfa ríkis og sveitarfélaga í að bæta samskipti og auka traust.

Ég spyr því ráðherra: Hvaða verkefni, ef einhver, sér ráðherra fyrir sér að hægt væri að flytja til sveitarfélaganna? Mun ráðherra beita sér fyrir breytingum á tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga? Mun ráðherra leggja til hækkun lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga á þessu kjörtímabili? Hvernig sér ráðherra fyrir sér að bæta samskipti og auka traust milli ríkis og sveitarfélaga?