149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

framtíð og efling íslenska sveitarstjórnarstigsins.

[14:21]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur fyrir að efna til umræðu um framtíð og eflingu sveitarstjórnarstigsins sem við ræðum kannski allt of sjaldan. Þetta er þarft umræðuefni og tímasetningin er góð þar sem nýtt kjörtímabil sveitarstjórna er nýlega hafið. Við slík tímamót er gott að horfa til framtíðar.

Meðal þess sem var til kynningar og umræðu á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga nýlega voru skýrslur tveggja nefnda samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins um þau álitaefni sem hv. þingmaður hefur vakið máls á í dag, annars vegar um stöðu og framtíð íslenskra sveitarfélaga og hins vegar áfangaskýrsla um endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Ég held að við á hinu háa Alþingi séum flest ef ekki öll sammála þeirri stefnu að efla beri sveitarstjórnarstigið og tryggja að sveitarfélögin hafi nægjanlega tekjustofna til að sinna lögbundnum verkefnum. Þá viljum við að samskipti og samráð þessara tveggja stjórnsýslustiga, ríkisins annars vegar og sveitarfélaga hins vegar, sé gott og farsælt þótt auðvitað verði ekki komist hjá því að ágreiningur geti verið um einstök mál. Ég held að það megi fullyrða að þróunin á síðustu árum sé sú að þetta samstarf fari mjög batnandi.

Við höfum séð jákvæða þróun sveitarstjórnarstigsins á umliðnum árum. Stefnan hefur verið sú að efla sveitarstjórnarstigið með því að færa til sveitarfélaga verkefni og tekjustofna og stuðla að fækkun þeirra með sameiningum. Ég sé fyrir mér að það megi færa fleiri verkefni til þeirra, t.d. kæmi öldrunarþjónustan þar til álita sem og rekstur framhaldsskólanna.

Menn spyrja sig hins vegar hvort sveitarfélögin séu nægjanlega vel í stakk búin til að takast á við slíkar áskoranir. Það er eðlileg spurning. Meira en helmingur sveitarfélaga hafa færri en 1.000 íbúa og í ríflega þriðjungi sveitarfélaga búa færri en 500 íbúar. Afleiðingin er óvenju mikið samstarf sveitarfélaga um lögbundin verkefni sem leiðir af sér annars vegar skort á yfirsýn og hins vegar óljóst umboð.

Þá er til staðar umfangsmikið stuðningskerfi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga en þaðan fá minni sveitarfélögin hlutfallslega meira af heildartekjum sínum en þau fjölmennari.

Önnur nefndanna sem ég gat um áðan komst að þeirri niðurstöðu að sveitarfélögin væru of fámenn. Lagt var til að stjórnvöld mörkuðu skýra langtímastefnu fyrir sveitarfélög til allt að næstu 20 ára þar sem allt væri undir, byggðamál, samgöngumál og fjármál sveitarfélaga. Kallað var eftir nýrri nálgun, horft yrði til sveitarfélaga út frá þeirri þjónustu sem þau veita og þeim er ætlað að veita, hún kortlögð og útfærð, m.a. með tilliti til landfræðilegra og lýðfræðilegra þátta.

Ég er sammála þessari áherslu og hef þegar tekið fyrsta skrefið. Með nýjum lögum sem Alþingi samþykkti í júní sl., verða áætlanir á sviði samgangna, fjarskipta, sveitarstjórna- og byggðamála samræmdar. Sveitarstjórnarstigið er þar ekki undanskilið því nú er lögbundið að taka saman í eina áætlun stefnumörkun ríkisins í málefnum sveitarfélaga. Ráðherra málaflokksins skal leggja á þriggja ára fresti tillögu til þingsályktunar fyrir Alþingi um stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga til 15 ára í senn. Í áætluninni skal jafnframt mörkuð aðgerðaáætlun til næstu fimm ára.

Á landsþingi sambandsins setti ég fram tillögu um sameiginlega stefnu um að fækka og efla sveitarfélög með sameiningum. Hugmyndin var sú að við gætum byrjað á átaki þar sem sveitarfélög hafa fjögur til átta ár, í mesta lagi, til að ná tilteknum markmiðum í frjálsum sameiningum. Samhliða yrði fjárhagslegur stuðningur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga við sameiningar og til skuldalækkunar stóraukinn. Eftir að þessu tímabili lyki tæki hins vegar gildi nýtt ákvæði sveitarstjórnarlaga um lágmarksíbúafjölda. Þau sveitarfélög sem ekki hefðu nýtt tímann til að ná settu markmiði með frjálsum sameiningum þyrftu þar með að sameinast nágrannasveitarfélagi til að uppfylla skilyrði laganna um íbúafjölda. Þá kæmi ekki til íbúakosninga um sameiningar, frá þeim tíma, heldur yrði um skyldubundna sameiningu að ræða.

Þessi atriði verða hluti af stefnumörkun fyrir sveitarstjórnarstigið sem verður unnin í nánu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og ég hef á þeim vettvangi hvatt til þess að þetta mál verði tekið til umfjöllunar.

Hvað tekjustofnamál varðar hafa málefni Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verið til umræðu í langan tíma án þess að heildaruppstokkun á kerfinu hafi farið fram. Menn hafa bent á að núverandi skipulag sjóðsins hamli sameiningum og dragi þannig úr hvata til umbóta. Bent hefur verið á að sjóðurinn ívilni litlum sveitarfélögum á kostnað stærri og að sveitarfélög sem nýta ekki útsvarsheimildir að fullu fái það jafnframt bætt úr jöfnunarsjóði.

Fyrirliggjandi tillögur ganga út á að byrja með einfaldri aðlögun á gildandi regluverki og í framhaldinu, t.d. þegar nánar liggur fyrir um sameiningarmál, sé hægt að taka stærra skref. Útfærslur verða kynntar innan fárra daga í samráðsgátt Stjórnarráðsins og það er reiknað með að breytingarnar taki gildi frá og með næstu áramótum. Hvað aðra tekjustofna varðar er það þekkt að vilji ríkisins er að færa gistináttagjaldið til sveitarfélaganna. Það er síðan sérstök umræða hvernig því yrði skipt á milli sveitarfélaga.

Að endingu vil ég nefna það réttlætismál að jafna þarf betur tekjur sem sveitarfélög hafa af mannvirkjum sem nýtt eru til orkuframleiðslu og dreifingar. (Forseti hringir.) Þau sveitarfélög sem eru svo lánsöm að stöðvarhús lendir á þeirra svæði fá góðar tekjur en hin engar. Því hef ég ákveðið að skipa starfshóp með fulltrúum til að vinna áfram með þær hugmyndir sem liggja þar á borðinu og móta tillögur til breytinga.