149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

framtíð og efling íslenska sveitarstjórnarstigsins.

[14:29]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur fyrir vekja máls á þessu mikilvæga máli hér og þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin.

Ég held að við í þessum sal mættum ræða sveitarstjórnarmál mun oftar en við gerum enda setjum við oft lög og reglur sem snerta sveitarfélögin beint og oft án tilskilins samráðs við þau. Ég fagna mjög þeirri skýrslu sem hér er til umræðu. Ég tek sérstaklega undir mikilvægi þess að sveitarfélögin séu stærri og öflugri til að bera þá þjónustu sem þeim er falið að sinna.

Einnig held ég að það að sveitarfélögin vinni langtímastefnumótun skipti líka miklu máli, þ.e. að ríki og sveitarfélög vinni saman að slíku. Tekjuskipting sveitarfélaganna er mál sem oft hefur komið til umræðu og virðist vera sífellt þrætuepli. Ég held að við þurfum að finna leið, fljótt og vel, að því hvernig eðlilegt er að skipta gistináttagjaldinu milli sveitarfélaganna. Svo er, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, mjög mikilvægt að jöfnunarsjóðurinn sé lagaður og einfaldaður þannig að í fyrsta lagi skilji einhver hreinlega út á hvað þessar reglur ganga.

Þá langar mig að nota síðustu mínútuna til að koma aðeins inn á verkefni sveitarfélaganna. Sum sveitarfélaganna vilja jafnvel taka að sér frekari verkefni. Er það gott því að sum hafa fulla burði til þess. Í mínum huga er mikilvægt að horfa til þess hvað nærþjónusta er og oft og tíðum er það þannig að sveitarfélögin eru best fallin til að veita þá þjónustu. En ég myndi gjarnan vilja, virðulegi forseti, að við horfðum líka til verkefna sem eru ekki nærþjónusta en samt á herðum sveitarfélaganna.

Langar mig þá sérstaklega að nefna mál eins og úrgangsmál og t.d. framkvæmdaleyfi fyrir línur og vegi sem ganga í gegnum mörg sveitarfélög. Væri kannski skynsamlegt að taka upp umræðu við sveitarfélögin um hvort það séu einhverjir málaflokkar sem þau sinna í dag sem væru kannski betur til þess fallnir að teknar væru ákvarðanir um á stærri vettvangi eins og hér? Á sama tíma eru hér verkefni sem sveitarfélögin gætu mjög vel sinnt sem teljast þá til nærþjónustunnar. (Forseti hringir.) Það væri hægt að ræða vel og lengi um þetta ágæta mál en ég er víst komin yfir á tíma.