149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

framtíð og efling íslenska sveitarstjórnarstigsins.

[14:31]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil vera sammála fólki um tekjuskiptinguna. Mig langar að leggja til annan vinkil í þá umræðu en það er hvernig hvatinn í núverandi tekjuskiptingarkerfi virkar. Sveitarfélögin fjármagna sig aðallega á fasteignaskatti og útsvari. Það býr til ákveðinn hvata og takmarkar atvinnustarfsemina á þann hátt að hún miðast við fermetra húsnæðis og höfðatölu íbúa sem greiða tekjuskatt. Hvatinn til uppbyggingar atvinnulífs á sveitarstjórnarstiginu miðar að þessum takmörkunum, ekki að því endilega að byggja upp atvinnulíf sem byggist á öðrum forsendum. Hvert renna t.d. tekjur af netverslun eða söguferðum, norðurljósaferðum, snjallsímaforritum, af annars konar atvinnustarfsemi en takmarkast af fermetrafjöld og fjölda íbúa sem greiðir tekjuskatt?

Að leyfa sveitarstjórnarstiginu að fá hlutdeild í virðisaukaskattinum, svo að dæmi sé tekið, fjármagnstekjuskattinum, útsvari, fyrirtækjaskatti, veiðigjaldi t.d., býr til annars konar hvata fyrir sveitarstjórnarstigið til að byggja upp fjölbreyttari atvinnustarfsemi og þar held ég að lykillinn sé í þessu máli. Þetta snýst ekki bara um að tryggja grundvöllinn fyrir fjármögnun sveitarstjórnarstigsins og þeirrar þjónustu sem þar er veitt, heldur líka að gera atvinnulífið út um allt land fjölbreyttara.