149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

framtíð og efling íslenska sveitarstjórnarstigsins.

[14:33]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur kærlega fyrir að koma þessari umræðu á. Um er að ræða afar mikilvægt málefni og skýrslan sem undir liggur er gott innlegg í þá umræðu.

Mig langar að koma sérstaklega inn á tekjustofna sveitarfélaganna og ræða aðeins út frá þeim vinkli. Ég hef nú í þrígang lagt fram hér á þingi þingsályktunartillögu um heimildir sveitarfélaga til að leggja á umhverfisgjöld sem gæti verið ein tegund gjaldstofns sem sveitarfélögin gætu bætt við sig. Hér hefur þegar verið rætt aðeins um hlutdeild sveitarfélaganna í fjármagnstekjuskattinum og það mætti þess vegna ímynda sér nokkurs konar útsvarshluta af þeim tekjum eða af þeim skatti.

Mikilvægi gistináttagjaldsins er einnig mikið og þar eru miklir möguleikar fyrir sveitarfélögin. En eins og nokkrir hv. þingmenn hafa komið hér inn á, þá þarf líka, áður en farið er alla leið í þeim efnum, að útfæra með hvaða hætti tekjum af gistináttagjaldi veður dreift á milli sveitarfélaga, hvort við förum jöfnunarsjóðsleið eða hvort við förum aðra leið í því efni.

Hv. þingmaður kom inn á íbúafjölda og stærð sveitarfélaga og raunar gerði hæstv. ráðherra það einnig. Þarna þarf líka að tala um samvinnu sveitarfélaga sem víða er mjög mikil. Þetta eru atriði sem við þurfum að skoða gaumgæfilega og ég er að minnsta kosti einn þeirra sem eru komnir á þá skoðun að með einhverjum hætti eigi að knýja sveitarfélög til þess að sameinast og stækka, til þess að gera þeim auðveldara fyrir að taka að sér verkefni.

Sveitarfélögin eru lykilstofnarnir í samfélaginu, þau gegna miklu hlutverki í nærþjónustu og styrkur þeirra, stærð og samvinnuvilji skipta miklu máli í að gera þeim kleift að rækja þessi hlutverk sín.