149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

framtíð og efling íslenska sveitarstjórnarstigsins.

[14:38]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á að fagna þessari umræðu um hvernig við styrkjum og eflum sveitarstjórnarstigið. Ég held að almennt hafi flutningur verkefna til sveitarstjórna gefið góða raun. Það er megintilgangurinn að bæta þjónustu við íbúa sveitarfélaganna, færa þjónustuna nær. En það er líka alveg augljóst, eins og komið hefur fram í umræðunni hér, að fjármögnun þessara verkefna hefur ekki verið nægjanleg. Það er alveg sama hvert horft er. Fjölmörg dæmi eru um þetta, það er t.d. talið að 30% vanti upp á daggjöld hjúkrunarheimila til að mæta kröfum sem ríkið skilgreinir. Þetta er auðvitað mjög þægileg staða hjá ríkinu að sitja í, að færa verkefni yfir til sveitarfélaganna annars vega og semja um fjármögnun þeirra í upphafi, en sitja síðan áfram og herða og þróa kröfur hvað varðar þessa þjónustuliði áfram án þess að bera neina ábyrgð á fjármögnun þeirra.

Ég held að við sjáum þennan vanda í hnotskurn — þetta er ekki aðeins í fjármögnun hjúkrunarheimilanna, þetta kemur líka að fjármögnun grunnskólastigsins, þetta kemur að fjármögnun á þjónustu við fatlaða og svo mætti áfram telja — þegar kemur að launastigi starfsmanna sveitarfélaga. Starfsmenn sveitarfélaga eru lægst launuðu stéttirnar í landinu. Það er einfaldlega búið að strípa laun þessara hópa alveg inn að beini, skera burt allt sem heitir yfirvinna eða yfirborgun af nokkru tagi og kemur fram í því að starfsmenn sveitarfélaga eru að jafnaði með 25% lægri laun en starfsmenn ríkisins. Það segir okkur auðvitað að hér er vandamál á ferðinni. Auðvitað kunna að vera aðrar skýringar en eingöngu vanfjármögnun á sveitarstjórnarstiginu, það kann að vera menntunarmunur og ábyrgðarmunur o.s.frv., en það hefur líka komið mjög skýrt fram í slíkum úttektum, þar sem við höfum m.a. verið að taka út kynbundinn launamun, að það er verulega atvinnu- eða launagreiðendatengdur launamunur í þessu (Forseti hringir.) eftir því hvort fólk starfar hjá ríki eða sveitarfélögum. Það er alveg augljóst að það þarf að taka á fjármögnun sveitarstjórnarstigsins. Það þolir ekki lengri bið.