149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

framtíð og efling íslenska sveitarstjórnarstigsins.

[14:42]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, fyrir að efna til þessarar þörfu umræðu. Við upphaf kjörtímabils sveitarstjórna sýnast mér umræðuefni fulltrúa þeirra vera á svipuðum nótum og verið hefur og því mikilvægt að taka stöðuna og fá upplýsingar frá ráðherra málaflokksins. Undanfarið hefur ekki staðið á því að sveitarfélög fái fleiri verkefni, en raunin kannski verið sú að fjárveitingar með þeim vantar eða þá að eftir yfirfærslu hafa kröfur verið auknar varðandi umfang, umsýslu og gæði þjónustu. Þess vegna er ákall um enn meira samtal og samvinnu. Það ætti að vera auðvelt því að ekki er annað að heyra en samhljóm þegar kemur að umræðu um eflingu sveitarstjórnarstigsins og mikilvægi þess að vel sé að málum staðið.

Þá verðum við líka að huga að umgjörð þessara mála. Vil ég þar nefna hlutverk jöfnunarsjóðs. Um hann er hægt að segja ýmislegt. Þar höfum við verkfæri sem hefur virkað ágætlega, en þó verður að segjast eins og er að tilhneigingin hefur verið sú að skella þar inn sífellt fleiri verkefnum. Það er erfitt að átta sig á raunverulegu umfangi hans og líklega erum við komin töluvert frá upphaflegum tilgangi hans. Í áðurnefndri skýrslu kemur fram tillaga um að starfsemi sjóðsins verði tekin til gagngerrar endurskoðunar og gerð krafa um að hann styðji við langtímastefnumótun og hætt verði að nota sjóðinn til að plástra núverandi kerfi. Þetta hefur einhvern veginn þróast svona þar sem menn eru alltaf að bregðast við aðstæðum sem upp koma.

Nú er lag að breyta þessu því að með nýjum lögum, sem samþykkt voru á Alþingi í júní sl., verða áætlanir á sviði samgangna, fjarskipta, sveitarstjórna- og byggðamála samræmdar. Ný samgönguáætlun ber þess merki, en það er mikilvægt að við gerum til framtíðar áætlanir sem standast.

Forseti. Ég hvet hæstv. ráðherra áfram á þeirri braut að móta áætlanir til framtíðar.